Hvassviðri hefur verið víðs vegar um landið í dag og eru gular viðvaranir í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði. Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands er varað sérstaklega við lélegum akstursskilyrðum á fjallvegum.
„Þetta er nú langt frá því að vera versta veðrið sem hefur komið en rétt slagaði upp í að vera tilefni í viðvörun, upp á fjallvegina aðallega,“ segir Teitur Arason veðurfræðingur.
Ekki er um viðvaranir að ræða á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að veðrið hafi verið leiðinlegt í dag og mun halda áfram að hvessa fram á nótt en lægja undir morgun.
Eftir hádegi á morgun bætir síðan aftur í vindinn og verða éljahryðjur, en þó ekki eins hvasst og verður í kvöld.
„Þetta er svona frekar dæmigert veður, það er lægð við Amassalik, Grænlandi, og svo er þetta heimskautaloft frá Kanada sem að kemur fyrir Hvarf og þegar að kaldur loftmassi fer yfir heitan sjóinn suðvestur á landinu þá hitnar loftið neðan frá og er mjög óstöðugt, þess vegna myndast svona éljaklakkar.“