Í frumskógi laganna er margt sem fangar athyglina – útdauð ákvæði og orðalag í útrýmingarhættu. Þetta þekkir Þórir Ingvarsson aðstoðaryfirlögregluþjónn ansi vel, þar sem hann fæst við aldagömul lög í sínu starfi, ótrúlegt en satt.
Þórir starfar hjá þjónustudeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og meðal starfa hans er að safna saman og halda skrá yfir óskilamuni sem verða á vegi lögreglumanna. Til dæmis kemur Þórir að víðfrægu reiðhjólauppboði lögreglunnar, þar sem reiðhjól í óskilum eru boðin hæstbjóðanda.
Uppboðin, sem farið hafa fram tvisvar á síðustu misserum og það á netinu vegna faraldursins, hafa gengið vel að sögn Þóris.
Það er vel þekkt að ágóðinn af þessum uppboðum rennur beint í svokallaðan lögreglusjóð og hafa margir í gegnum tíðina hent gaman að því að mögulega sé tekið úr sjóðnum þegar þarf að fjármagna skemmtanir og hátíðahöld lögreglumanna.
Þórir segir að það sé nú ekki svo og bendir á, blaðamanni til mikillar undrunar, að það sé skýrt kveðið á um það í lögum hvernig uppboð á óskilamunum skulu fara fram.
Þau lög eru ekki þau sömu og lögfræðingar dagsins í dag fást alla jafna við, enda eiga þau uppruna sinn í Danmörku 18. aldar. Nánar tiltekið er kveðið á um það í opnu bréfi frá kansellíi Kristjáns VII. Danakonungs frá árinu 1767, að í Kaupmannahöfn skulu fundnir munir „geymdir á skrifstofu lögreglustjóra, og skuli þar bókað, hver fundið hafi hvern hlut og hvar, og það auglýst í blaði og með uppfestri skrifaðri auglýsingu; að þegar eigandinn gefur sig fram og fær hið fundna afhent á skrifstofu lögreglustjóra, skuli hann greiða dálitla þóknun í fundarlaun, eftir verði hlutarins, atvikum og úrskurði lögreglustjóra og auk þess kostnað við birtingu í blaði; og loks að, ef eigandinn kemur eigi innan árs og dags, skuli selja hið fundna handa lögreglusjóðnum, og finnandi þá fá þriðjung þess í fundarlaun“, eins og segir í opna bréfinu.
Þetta kemur okkur Íslendingum við af því árið 1811 ákvað Friðrik VII. Danakonungur að hið sama skyldi gilda um alla kaupstaði á Íslandi.
Í opnu bréfi frá kansellíinu 8. júní 1811 segir:
„En með allrahæstum úrskurði, 5. júní síðastl., hefir Hans Hátign allramildilegast ákveðið, að fyrirmælin í ofannefndu opnu bréfi, 28. september 1767, skulu eftirleiðis einnig ná til allra annarra kaupstaða í báðum ríkjunum, þó svo, að í þeim kaupstöðum, þar sem engin blöð koma út, skal hinum fundnu munum lýst með uppfestum auglýsingum og bumbuslætti.“
Bíddu okei, og þið eruð að fara eftir þessu eða hvað?
„Heldur betur. Við erum að vísu alveg hætt með bumbusláttinn,“ segir Þórir léttur í bragði í samtali við mbl.is um málið.
Þórir segir einnig að mögulega sé skynsamlegt að uppfæra þessi lög og sendir óformlegan bolta þess efnis í fætur Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.
„Samkvæmt þessu kansellíbréfi, sem er komið til ára sinna svo vægt sé til orða tekið, þá fer afrakstur uppboðsins til lögreglusjóðsins og lögreglusjóður úthlutar þessu fé [til góðgerðarmála]. Þessi háttur hefur verið hafður á í áratugi og þess má geta að lögunum hefur verið breytt í Danmörku og þau eru ekki lengur í gildi þar,“ segir Þórir.