1.200 manns bólusettir fyrsta hálftímann

Frá bólusetningunni í morgun.
Frá bólusetningunni í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 1.200 manns voru bólusettir á fyrsta hálftímanum í morgun eftir að bólusetningarátak hófst með örvunarskammti af bóluefni gegn Covid-19

„Þetta gengur fínt. Það er gott flæði inn og fín þátttaka sýnist mér,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fólk sem er 60 ára og eldri og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eru bólusettir fyrst og notast er við bóluefni Pfizer. Það verður áfram gert, enda er mikið til af því efni.

Fólk fyrir utan Laugardalshöll.
Fólk fyrir utan Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að renna blint í sjóinn hver mætingin,“ segir Ragnheiður Ósk, sem býst við 80% mætingu, eða um 8 þúsund manns á dag. „Það verður spennandi að sjá í dagslok hver mætingin hefur verið,“ bætir hún við en bólusett verður næstu fjórar vikurnar frá klukkan 10 til 15 í Laugardalshöll á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum.

Spurð hvenær aðrir verða boðaðir í bólusetningu sem eru ekki í framangreindum hópum segir hún það allt fara eftir þátttökunni. Hún segir að reynt verði að klára allt bóluefnið sem er til í landinu núna sem á að duga fyrir 160 þúsund manna hópinn sem verður boðaður í örvunarskammt fyrir áramót.

„Ef þeir skila sér allir komumst við kannski ekki í það en ef minni þátttaka verður komumst við neðar í aldrinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert