Axel Kristjánsson hæstaréttarlögmaður lést á hjúkrunarheimilinu Eir 12. nóvember tæplega 93 ára gamall.
Hann fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1928, sonur hjónanna Kristjáns Karlssonar forstjóra og Vilhelmínu Kristínar Örum Vilhelmsdóttur húsfreyju. Axel varð stúdent frá MR 1948 og cand. juris frá Háskóla Íslands 1954. Hann hlaut réttindi héraðsdómslögmanns 1959 og hæstaréttarlögmanns 1965.
Axel starfaði hjá Útvegsbanka Íslands frá 1954 til 1987, fyrst sem lögfræðingur, svo fulltrúi, aðallögfræðingur og síðast sem aðstoðarbankastjóri. Hann var sjálfstætt starfandi lögmaður frá vorinu 1987.
Axel ferðaðist um óbyggðir Íslands frá unga aldri. Ferðalög um landið voru hans ástríða alla tíð. Hann gekk m.a. í félagi við Vilhjálm Lúðvíksson og Þórunni Guðnadóttur úr Þórmörk í Landmannalaugar sumarið 1953. Þeir Vilhjálmur gengu svo úr Landmannalaugum í Þórsmörk árið 1955. Þetta var löngu áður en Laugavegurinn varð vinsælasta gönguleið landsins. Axel var mikill veiðimaður. Hann var einn fyrsti maðurinn til að stunda sportveiði á hreindýrum hér á landi allt frá árinu 1963. Þá var farið á hestum til veiða og gist í tjöldum. Síðustu hreindýraveiðiferðina fór Axel haustið 2020 í félagi við afkomendur sína og arftaka í veiðinni. Hann stundaði einnig lax- og silungsveiðar og gæsa- og rjúpnaveiðar um árabil.
Axel hafði sterkar skoðanir og mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum. Hann tjáði sig oft um þau, m.a. í aðsendum greinum í Morgunblaðinu.
Axel kvæntist Þórunni Guðnadóttur (1928-2018) 10. apríl 1954. Þau eignuðust fjögur börn, Guðna jarðeðlisfræðing, Kristínu sérkennara, Karl hæstaréttardómara og Sigríði tannlækni. Barnabörnin eru ellefu talsins og barnabarnabörnin eru tíu.