„Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi þróun heldur áfram og við sjáum fækkun í smitum, það væri óskandi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við mbl.is. Um helgina greindust á bilinu 130 til rúmlega 150 daglega með kórónuveiruna og eru það heldur færri en greindust seinni hluta síðustu viku.
Í gær greindust 152 innanlands en alls er 1.691 í einangrun með virkt smit. Hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti á föstudag en nú mega eingöngu 50 koma saman.
Þórólfur segir að þrátt fyrir að smitum fækki nú verði að sjá að minnsta kosti viku af aðgerðum til að sjá hvort þær skili tilætluðum árangri.
Auk aðgerða bindur Þórólfur einnig vonir við að að bólusetningarátak með örvunarskammti af bóluefni gegn Covid-19 skili árangri.
„Ég vona að fólk mæti og árangurinn verði eins og við vonumst til; að það verði enn betri vernd fyrir hvern og einn og einnig að örvunarskammturinn muni koma í veg fyrir útbreiðslu í samfélaginu sem tveir skammtar gera ekki alveg nógu vel.“
Fólk sem er 60 ára og eldri og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eru bólusettir fyrst og notast er við bóluefni Pfizer. Bólusett verður næstu fjórar vikurnar frá klukkan 10 til 15 í Laugardalshöll á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum.