„Náttúran fór óblíðum höndum um okkur í liðinni viku,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Er þar vísað til andláts kínversku konunnar sem lést í síðustu viku eftir að hafa farið út með öldu við Reynisfjöru.
Konan hafði verið í sjónum í nokkra klukkutíma þegar hún var hífð upp í þyrlu landhelgisgæslunnar. Hún var þá flutt á heilsugæslu í Vík og úrskurðuð látin þar.
Mikið brim var við ströndina er björgunaraðilar komu á vettvang og reyndist því ekki óhætt að sjósetja báta til björgunar. Var tekin ákvörðun um að aðhafast ekki að öðru leyti en með því að fylgjast með konunni þar sem hún sást á floti í sjónum.
„Ljóst er að þessar aðstæður eru einhverjar þær erfiðustu sem hjálparaðilar lenda í enda gengur þjálfun þeirra út á leit og björgun. Engum dylst að slíkt reynir á alla sem að málinu komu,“ segir í tilkynningunni.