Þóra Birna Ingvarsdóttir
6.620 manns mættu í bólusetningu í Laugardalshöllinni í dag, en það eru 68 prósent af þeim sem boðaðir voru.
Það hefði mátt vera betri þátttaka að mati Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hún hafði fyrr í dag tjáð mbl.is að búist væri við 80 prósent mætingu en kveðst þó ánægð með hvern og einn einasta sem mætir.
Spurð hvort hún finni fyrir minni stemningu meðal fólks fyrir bólusetningu en áður, segir hún að því sé öfugt farið.
„Ég held að þetta sé betra, þegar við vorum á Suðurlandsbrautinni voru ekki að mæta nema 30 til 40 prósent á hverjum boðuðum degi.“
Bólusetningar dagsins gengu ljómandi vel að sögn Ragnheiðar, það var góður hljómur í fólki og engin neikvæðni.
Ragnheiður kveðst ekki geta sagst hafa saknað þess að halda úti fjöldabólusetningar í Laugardalshöllinni, en það sé þó munur frá því í upphafi enda gangi ferlið smurt fyrir sig.
„Við erum öll farin að kunna þetta nokkuð vel, bæði að mæta í bólusetningu og framkvæma hana.“