Niðurstöður neytendakönnunar sem Strætó lét gera fyrr á árinu sýna skýran vilja til þess að þjónusta fyrirtækisins sé aukin meðal annars með aukinni tíðni ferða. Þá hafi breyting á leiðarkerfi ekki skilað sér sem skyldi. Þetta segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, en hann telur jafnframt að skoða þurfi forsendur fyrir borgarlínu komist Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta í komandi kosningum.
Í samtali við mbl.is segir Eyþór að á sama tíma og mjög mikið fjármagn fari í undirbúning borgarlínu sé þjónusta Strætó skert. Ekki verði unað við það á meðan beðið sé eftir borgarlínunni, sem hann reyndar segir að sé ekki töfralausn þegar komi að samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við núverandi áform séu enn 4-5 ár í að fyrsti áfangi borgarlínu komist í gagnið. Segir Eyþór að bæta þurfi þjónustu Strætó fram að því.
Í könnuninni er meðal annars spurt hvað Strætó geti gert til þess að einstaklingar séu líklegri til að nýta sér þjónustuna. Nefna flestir að aukin tíðni myndi þar skipta mestu máli. Næst flestir nefndu bætt leiðarkerfi og í þriðja sæti kom svo hátt verð þjónustu.
„Það er greinilegt að fólkið kallar eftir bættri þjónustu,“ segir Eyþór. Hann bendir á að í byrjun kjörtímabilsins hafi allir flokkar samþykkt að beina því til stjórnar Strætó að auka tíðni á helstu leiðum Strætó niður í 7,5 mínútur í stað 10 mínútna á háannatíma. „Vandinn er að þetta hefur verið svikið,“ segir Eyþór. Nefnir hann einnig að hætt hafi verið að bjóða upp á næturstrætó og þá hafi ekki verið keyptir nýir vagnar eins og þörf sé á og bilanir séu því algengari en annars væri.
Þá segir Eyþór jafnframt að breyting á leiðarkerfi Strætó hafi ekki skilað sínu. Nefnir hann að stoppistöðvum hafi fækkað í austurhluta borgarinnar frá því í byrjun kjörtímabilsins og það komi illa við fólk í úthverfunum. Segir hann jafnframt að aðal gallinn í leiðarkerfinu sé hversu lengi strætisvagnar séu á milli hverfa. „Það tekur kannski 40-50 mínútur að komast á milli borgarhluta og meðan svo er þá er einkabíllinn miklu betri kostur fyrir fólk,“ segir hann.
Eyþór segir sláandi að sjá að þjónustuliðir séu í efstu tveimur sætunum en að verð komi ekki fyrr en í því þriðja. „Ef við berum þetta saman við aðra þjónustu þar sem fólk horfir fyrst og fremst á verð þá sýnir þetta að aðalvandinn er þjónusta.“
Varðandi verðskrá Strætó segir Eyþór að stök fargjöld séu of dýr og að þeir sem ekki eigi kort veigri sér við að taka strætó. Hann segir að þó verðið sé klárlega þáttur sem margir horfi á verði erfitt að lækka það meðan rekstur Strætó sé þungur.
Spurður hvort hann sé þá að kalla eftir því að auknir fjármunir séu settir í Strætó til að bæta þjónustuna, með bættri tíðni ferða og fleiri leiðum segir Eyþór að hann telji lausnina fjölþætta. Í fyrsta lagi telji hann að viðbótarþjónusta fyrir þau svæði sem séu illa þjónustuð gæti orðið nokkuð hagkvæmari ef hún væri boðin út. Til lengri tíma telji hann hins vegar að horfa þurfi til sjálfkeyrandi lausna. „Það er besta leiðin til að auka þjónustu með sem minnstum kostnaði,“ segir Eyþór.
Nefnir hann í því sambandi að fara þurfi í átak við frágang á götum til að vera tilbúin þegar sjálfkeyrandi lausnir verði orðnar algengar. Þá segir hann einnig að í verkfærakistunni sé að fækka ljósastýrðum gatnamótum og fara í gerð Sundabrautar.
Sveitarstjórnarkosningar eru á komandi vori. Miðað við ofangreind svör leikur blaðamanni forvitni að vita hvað megi lesa í þau fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn komist í meirihluta í borginni. Telur Eyþór að hverfa eigi frá borgarlínu og einblína frekar á að bæta þjónustu í núverandi kerfi Strætó og uppbyggingu innviða fyrir bifreiðar, eins og hann nefnir hér að ofan? Eyþór segir að borgarlínan sé enn í frumdrögum. „En miðað við stöðuna í í umferðinni, þá er algjörlega nauðsynlegt að endurskoða það miðað við þær tæknibreytingar sem eru í gangi.“