Ísland er meðal þeirra þjóða sem Sóttvarnastofnun Evrópu hefur áhyggjur af vegna þróunar Covid-19 í landinu, eftir því sem fram kemur í vikulegri skýrslu stofnunarinnar um framgang smitsjúkdóma í heimsálfunni.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að í síðustu viku hafi smitum fjölgað um nítján prósent í Evrópu og að útlit sé fyrir að sú tala fari hækkandi á næstu tveimur vikum. Þá muni dauðsföllum fjölga af völdum veirunnar.
Á þessari 44. viku ársins 2021 hafa greinst samtals 250.479.292 tilfelli af Covid-19-sjúkdómnum í Evrópu, frá því í desember 2019 þegar gagnaöflun hófst.
Rétt er að hafa í huga að aðgengi að sýnatökum hefur verið misgott eftir löndum og því líklegt að raunverulegur smitfjöldi sé meiri.
Flest smit og flest dauðsföll eftir heimsálfum hafa orðið í Afríku, þá Asíu, Ameríku og loks Evrópu.
Innan Evrópu hafa flest smit greinst í Frakklandi en flest dauðsföll vegna veirunnar orðið á Ítalíu.
Sóttvarnastofnun Evrópu hefur tekið upp á því að flokka þjóðir eftir því hve miklar áhyggjur skuli hafa af þróun mála, litið til fimm vikulegra tölfræðiþátta sem gefa heildstæða mynd af þróun smita og veikinda í viðkomandi landi.
Tíu lönd tilheyra þeim flokki sem stofnunin hefur þyngstar áhyggjur af. Það eru Belgía, Búlgaría, Eistland, Grikkland, Ungverjaland, Finnland, Pólland og Slóvenía.
Flokkurinn sem Ísland tilheyrir er sá sem stofnunin hefur áhyggjur af, en ekki jafn miklar og af þeim fyrrnefnda. Ásamt Íslandi eru þar tólf önnur lönd. Það eru Austurríki, Danmörk, Finnland, Þýskaland, Írland og Lettland, Liechtenstein, Lúxemborg, Noregur, Rúmenía og Slóvakía.
Stofnunin hefur minni áhyggjur af þróun mála á Möltu, Ítalíu, Spáni og í Svíþjóð.
Minnstar áhyggjur eru bundnar við Kýpur, Frakkland og Portúgal, miðað við stöðuna í dag.