Dularfullar gárur sáust í sjónum vestan megin við flugbrautina á Reykjavíkurflugvelli og Ægissíðu í gær. Ekki er vitað nákvæmlega hvað olli þessum gárum en líklega er óhreint skólp skýringin. Þetta segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna í samtali við mbl.is.
„Ég var spurð hvort þetta gæti verið sæskrímsli og ég sagðist ekki geta fullyrt að svo væri ekki. Líklegra er samt að þetta sé vegna skólps frá skólpstöðinni okkar í Ánanaustum.“
Græn leið, fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf í umhverfismálum, birti eftirfarandi loftmyndir af gárunum á Facebook-síðu sinni í gær.
Miðvikudaginn 20. október var skólpstöðin í Ánanaustum tekin tímabundið úr rekstri vegna viðhalds. Síðan þá hefur stöðin verið óstarfhæf og grófhreinsuðu skólpi verið veitt í sjóinn. Ekki var vitað hver dreifing mengunarinnar frá skólpinu yrði og því hafa sýni reglulega verið tekin við alla strandlengjuna, að sögn Ólafar.
„Síðan gerðist það í vikunni að við fórum að sjá rauðar tölur um aukna mengun þarna við Ægissíðuna. Það voru miklar rigningar þegar sýnin voru tekin sem gæti útskýrt þessi háu gildi. Þegar kerfið annar ekki öllu sem kemur inn í dælustöðina þá er restinni dælt 200 metra út á haf. Það er þá mjög útþynnt skólp blandað rigningarvatni.“
Stöðin sé hönnuð til þess að bregðast við á þennan hátt sé álagið á hana of mikið.
„Það eru aðeins tvær leiðir fyrir skólpið til að fara ef það fer of mikið af því inn í kerfið, annað hvort óhreinsað út í sjó eða aftur heim til fólks. Þetta er betri leiðin.“
Unnið er að viðgerð á einni af fjórum dælum stöðvarinnar en á föstudag slökkti önnur dæla á sér fyrirvaralaust, að sögn Ólafar.
„Hún sendi engin villuboð í kerfið eða neitt slíkt þannig við vissum hreinlega ekki af því að það væru bara tvær dælur starfandi fyrr en við fórum að sjá mælingar sem eru ekki einu sinni tengdar þessari stöð. Þá var búið að vera yfirfall skólps umfram það sem þessar tvær dælur réðu við en dælunni var bara slegið inn aftur og nú er hún í réttum rekstri. Þetta er það sem var að gerast hjá okkur. Mér finnst afskaplega líklegt að það sem sást í sjónum sé tengt því.“
Innt eftir því segir hún fólk sem stundar sjósund í Nauthólsvíkinni ekki þurfa að hafa áhyggjur.
„Við höfum náttúrulega fylgst vel með og tölurnar í Nauthólsvík og þar í kring hafa verið mjög fínar. Við birtum allar tölur um þetta á netinu og deilum þeim líka inn á Facebook-hópa sjósundsáhugafólks þannig það ætti að vera vel upplýst um stöðu mála.“