KLAPP er nýtt greiðslukerfi fyrir Strætó á höfuðborgarsvæðinu og það verður formlega innleitt á morgun, 16. nóvember 2021. Samhliða kerfinu verður innleidd ný gjaldskrá.
Fyrirmynd kerfisins er þekkt í almenningssamgöngum um allan heim, þar sem kort eða farsími er settur upp við skanna þegar fargjald er greitt í vagninum, að því er fram kemur í tilkynningu.
Það eru 3 greiðsluleiðir í Klappinu: KLAPP kort, KLAPP app og KLAPP tía. KLAPP kort er snjallkort sem lagt er við skanna um borð í strætó til að greiða fargjald. Með appinu er snjallsími notaður til að kaupa staka miða eða kort og tían er pappaspjald með kóða sem er skannaður.
Fram kemur að frá og með 1. mars 2022, verður ekki lengur hægt að greiða með farmiðum um borð í Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Gefinn verður frestur til 16. mars 2022 til þess að skipta öllum gömlum farmiðum yfir í inneign í KLAPP greiðslukerfinu.
Handhafar tímabilskorta í gamla greiðslukerfi Strætó skulu leyfa gildistíma kortanna að renna út áður en skipt er yfir í KLAPP greiðslukerfið.