„Því miður fór bindið niður í rokinu á laugardaginn. Við náðum að koma því í örugga höfn en ætli við setjum það nokkuð upp aftur vegna þessara haustlægða. Kannski að ári,“ segir Ása Sigríður Þórisdóttir, kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins.
Í tengslum við feðradaginn í gær sendi Krabbameinsfélagið frá sér ákall til feðra landsins um að fara inn á síðuna Pabbamein og kynna sér helstu einkenni krabbameina og fara strax til læknis ef einkenna verður vart. Til að vekja athygli á þessu var risastórt bindi hengt á Hús verslunarinnar með 320 merkjum Krabbameinsfélagsins – eitt fyrir hvern karl sem deyr úr krabbameini á ári.
Gul veðurviðvörun var gefin út um helgina og bindið góða þoldi ekki veðurofsann. Það fauk niður á laugardaginn.
Ása segir við mbl.is að þó bindið hafi orðið hvassviðrinu að bráð hafi uppátækið og átakið sjálft vakið verðskuldaða athygli. „Við erum búin að fá hringingar frá mörgum körlum síðan átakið byrjaði sem vilja leita sér aðstoðar. Þeir hafa margir ekki gefið einkennunum gaum og vilja fá upplýsingar um það hvert þeir eiga að leita. Í sumum tilfellum eiga einkennin sér eðlilegar skýringar en í öðrum staðfesta þau grun um krabbamein. Það er alltaf best að fara í tékk.“