Lögreglumennirnir tveir sem ráðist var á við skyldustörf í morgun voru slegnir í andlitið af sjúklingi á geðdeild Landspítalans eftir að lögreglunni hafði borist beiðni þaðan um aðstoð.
Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, voru lögreglumennirnir tveir krambúleraðir í andlitinu eftir að sjúklingurinn, sem er karlkyns, sló þá og leituðu þeir á slysadeild. Eftir það luku þeir vaktinni sinni og voru meiðsli þeirra því ekki alvarleg.