Viðgerðir á bilun sem kom upp í skólphreinsistöð við Ánanaust standa enn yfir og því fer enn óhreinsað skólp frá henni út í sjó. Þetta staðfestir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is.
Stöðin var tekin úr rekstri 20. október vegna viðhalds og átti hún að vera óstarfhæf í um það bil þrjár vikur á meðan skólpið væri gólfhreinsað áður en því yrði veitt í sjó, að því er greint frá í tilkynningu frá Veitum. Vegna ófyrirsjáanlegrar uppákomu hefur viðgerðin þó tekið lengri tíma en áætlað var, að sögn Ólafar.
„Það kom í ljós tæring og svo hefur vinnan við rafkerfið tekið aðeins lengri tíma. Þetta ætti að klárast á næstu sjö til tíu dögum.“
Hún segir það versta við það þegar veita þarf skólpi í sjó vera ruslið sem fólk sturtar niður í klósettin sín.
„Við náum þó að sía ruslið frá og erum með fyrirtæki í fjörunum sem hreinsar ef eitthvað fer með. Þannig að það eru aðallega lífrænu efnin sem eru að fara út. Sjórinn er vanalega fljótur að ganga frá þeim en á þessum árstíma lifa gerlarnir lengst eða að meðaltali um níu klukkutíma.“