„Tæp“ staða varðandi mönnun nýrra hágæslurýma

Frá gjörgæslu Landspítalans.
Frá gjörgæslu Landspítalans. Ljósmynd/Landspítali

Vegna skorts á gjörgæsluhjúkrunarfræðingum á Landspítalanum er staðan „tæp“ varðandi mönnun nýrra hágæslurýma Landspítalans sem verða tekin í notkun í desember og janúar, að sögn Hlífar Steingrímsdóttur, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs spítalans.

Stefnt er að því að opna tvö hágæslurými 1. desember við Hringbraut. Tvö til viðbótar verða opnuð í janúar. Hlíf segir að strax hafi verið farið í að auglýsa og ráða hjúkrunarfræðinga en sem fyrr sé erfitt að fá mannskap. Unnið sé að því hörðum höndum.

„Það er frekar tæpt. Það eru ekki margir þjálfaðir gjörgæsluhjúkrunarfræðingar til í landinu. Þetta þurfa að vera hjúkrunarfræðingar með þá menntun og þó þeir séu með þá menntun þá þurfa þeir að fara í ákveðna þjálfun og sú þjálfun stendur yfir núna. Við erum að undirbúa húsnæðið og stefnum að því að opna þessi tvö [hágæslurými] núna í desember eins og til stóð. Við erum alltaf að auglýsa og reyna að finna gjörgæsluhjúkrunarfræðinga, þá sem eru með þessa hæfni til að koma og vinna hjá okkur,“ greinir Hlíf frá.

Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Spurð hvort hún telji að hágæslurýmin leysi vandann á spítalanum segir hún þau klárlega vera skref í rétta átt. „Við erum, eins og ítrekað hefur komið fram, með alltof fá gjörgæslurúm og þeim hefur fækkað á síðustu tíu árum og það er aðallega vegna mönnunar,“ segir hún. Áfram þurfi þó að fjölga gjörgæslurúmum og sama fagfólkið þurfi áfram til starfa.

Eins hratt og hægt var 

Innt eftir því hvort ekki hafi verið hægt að flýta því að opna hágæslurýmin í ljósi stöðunnar vegna kórónuveirunnar segir hún að ráða þurfi inn fólk með rétta hæfni. Ekki verði tekið fólk úr öðrum störfum og það sett beint inn á gjörgæslu eða hágæslu. Fyrst þurfi það að fara í þjálfun í hálft ár. „Þetta er í rauninni gert eins hratt og við getum mögulega er gert,“ útskýrir hún. „Maður tekur ekki þetta starfsfólk beint inn af götunni.“

Hlíf Steingrímsdóttir.
Hlíf Steingrímsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Hún bendir á að fyrir venjulegan sjúkling á gjörgæslu þurfi fjögur stöðugildi gjörgæsluhjúkrunarfræðinga til að manna eitt rúm. Fyrir Covid-sjúkling þurfi aftur á móti átta gjörgæsluhjúkrunarfræðinga til að manna eitt rúm alla daga vikunnar. „Þetta er rosalega mannaflafrekt,“ segir hún en nefnir að módelið sé öðruvísi fyrir hágæslurými. Þar sé gert ráð fyrir einum gjörgæsluhjúkrunarfræðingi á tvö rúm.

Fyrir rýmin tvö sem verða opnuð í desember þarf fjögur og hálft stöðugildi gjörgæsluhjúkrunarfræðings, auk álíkra margra sjúkraliða. Jafnmörg stöðugildi þarf svo fyrir rýmin sem varða opnuð í janúar. Seinna á árinu er síðan stefnt á að opna tvö hágæslurými til viðbótar, ef mönnun gengur vel, og verða þau þar með orðin sex talsins.

Gjörgæslurúmin á Landspítalanum eru núna 14 talsins, sjö á Hringbraut og sjö í Fossvogi. Stæði eru aftur á móti fyrir tíu rúm í hvoru húsi. Á Nýja Landspítalanum er gert ráð fyrir 23 gjörgæslurúmum, sem er í samræmi við þarfagreiningu sem hefur farið fram, að sögn Hlífar.

Of veikir til að fara á almenna legudeild

Í nýju hágæslurýmunum sem brátt verða tekin í notkun geta til dæmis verið sjúklingar sem eru komnir úr öndunarvél en eru ennþá það veikir að þeir geta ekki farið á almenna legudeild. Einnig geta þetta verið sjúklingar á bráðamóttöku sem eru mjög veikir en þurfa ekki öndunarvél og gjörgæslumeðverð en þurfa engu að síður mjög mikla vöktun. Þessi rými eru því eins konar millistig á milli gjörgæslu og bráðalegudeildar.

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Unnur Karen

Hlíf segir hágæslu ekki áður hafa verið til staðar á spítalanum. Það hafi verið reynt fyrir mörgum árum síðan með öðru sniði en ekki gengið, meðal annars vegna mönnunar. „Núna ákváðum við að hafa þessa deild í tengslum við gjörgæslurnar. Við erum í rauninni að stækka gjörgæsluna og bæta þar við þessum hágæslurýmum sem auka líka sveigjanleikann í þjónustunni.“

Tveggja ára aukamenntun

Spurð hvort auglýst hafi verið erlendis eftir gjörgæsluhjúkrunarfræðingum segir hún að verið sé að ræða þau mál núna. Auglýst hefur verið fyrir utan landsteinana eftir skurðstofuhjúkrunarfræðingum og hefur Landsspítalinn verið að ráða í þær stöður, að sögn Hlífar. „Það getur alveg komið til þess að við þurfum að gera það í meira magni,“ segir hún og á þar við auglýsingar erlendis eftir gjörgæsluhjúkrunarfræðingum.

Hún bendir á að hjúkrunarfræðingar séu eftirsóknarverður starfskraftur alls staðar í heiminum og nefnir að tvö ár taki að mennta gjörgæsluhjúkrunarfræðing eftir útskrift úr hjúkrunarfræði. Verið er að fjölga námsstöðum og vonast er til að fleiri fari í þetta nám í framtíðinni. Um er að ræða meistaranám sem er bæði starfsnám og bóklegt.

Hefði þurft að áætla fyrr um mannskap

Spurð telur hún bæði launin og vinnuumhverfið gera það að verkum að erfitt er að fá fólk til starfa á Landspítalanum. Einnig séu of fáir að útskrifast.

Innt eftir því hvort verið sé að vinna í því að gera starf hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum meira aðlaðandi segir hún laun vera háð kjarasamningum og með stétt hjúkrunarfræðinga hafi það haft sín áhrif að lög voru sett tvívegis á samninga þeirra. Hún bendir einnig á að landsráð sé núna starfandi um mönnun og menntun heilbrigðisstétta þar sem verið er að skoða og gera áætlun um þörfina á mannskap.

„Það er algjör grundvöllur og hefði þurft að vera búið að gera fyrr af því að þetta er vandi sem við vissum af,“ segir hún og á við öldrun þjóðarinnar og aukna þjónustuþörf vegna hennar. Það hafi í raun verið ljóst í kringum 1940 þegar árgangarnir voru stórir og fólksfjölgunin mikil. „Við höfum ekki notað tímann nægilega vel til þess að undirbúa okkur, þ.e. þeir sem fara með stjórnina.“

Mikið álag hefur verið á Landspítalanum vegna kórónuveirunnar.
Mikið álag hefur verið á Landspítalanum vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Landspítalinn er á hættustigi vegna Covid-19. Ræður hann við álagið eins og það er núna?

„Eins og komið hefur fram ítrekað tökum við stöðuna á hverjum einasta degi, viðbragðsstjórn og farsóttanefnd. Það er farið yfir hvað þarf að gera til þess að dagurinn gangi upp í ljósi stöðunnar. Það er alltaf púsl á hverjum einasta degi.“

Er þörf á enn frekari takmörkunum í samfélaginu?

„Ég held að ef allir huga vel að sínum eigin sóttvörnum og haga sér skynsamlega þá vona ég að þetta dugi en það tekur tíma að ná kúrfunni niður. Við verðum bara að sýna þolinmæði,“ segir Hlíf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert