Yfirmáta kæruleysislegt

Sævar telur ósennilegt að um klúður sé að ræða.
Sævar telur ósennilegt að um klúður sé að ræða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Helgi Bragason, einnig þekktur sem Stjörnu-Sævar, segir það yfirmáta kæruleysislegt af Rússum að ákveða að stunda tilraunir með gervihnattavopn á gervihnetti sem er svo nálægt sporbraut geimstöðvarinnar.

Hann telur ósennilegt að um klúður sé að ræða enda fari ekki framhjá nokkrum manni sem fylgist með geimnum, þegar það myndast svokölluð ský af geimrusli svo nálægt mikilvægum sporbrautum.

Ský sem þessi myndist aðeins við árekstur eða við það að gervihnöttur sé sprengdur í tætlur eins og raun ber vitni, en geimráð Bandaríkjanna hefur gefið út að ekki leiki lengur vafi á því að um sprengingu var að ræða og að Rússar séu ábyrgir fyrir henni. 

Stjórnandi NASA á sama máli

Bill Nelson, stjórnandi NASA kveðst yfirgengilega hneykslaður á háttsemi Rússa sem varð til þess að geimfarar um borð alþjóðlegu geimstöðvarinnar neyddust til að leita skjóls í sérstökum hylkjum uns mesta hættan var liðin hjá. 

Hann segir það óhugsandi að Rússar séu reiðubúnir að leggja ekki einungis bandaríska geimfara og kínverska, samstarfsmenn sína, í hættu heldur einnig sína eigin geimfara.

Bill Nelson, stjórnandi NASA er yfirgengilega hneykslaður.
Bill Nelson, stjórnandi NASA er yfirgengilega hneykslaður. AFP

Geimrusl á 26 þúsund kílómetra hraða

Sprengingin varð til þess að gamalt gervitungl leysist upp í örsmáar agnir. Þær hafa verið taldar 1.500 en eru að öllum líkindum talsvert fleiri enda margar svo litlar að þær sjást illa. 

„Hraðinn á því sem lendir á sporbraut í kringum jörðina er um 26 þúsund kílómetrar á klukkustund. Þannig geta jafnvel litlar málningarflyksur auðveldlega komist í gegnum málma og gert gat á geimbúninga og þannig valdið miklum skaða,“ segir Sævar í samatli við mbl.is.

Geim­far­ar alþjóðlegu geim­stöðvar­inn­ar neydd­ust til að leita skjóls fyrr í …
Geim­far­ar alþjóðlegu geim­stöðvar­inn­ar neydd­ust til að leita skjóls fyrr í dag vegna fljúg­andi geimrusls í ná­vígi við stöðina. AFP

Tekur áratugi fyrir skýið að leysast upp

Það getur tekið áratugi fyrir rusl í þessari hæð, um 400 kílómetra upp í geim, að ýmist detta til jarðar eða þá eyðast í súrefninu á leiðinni þangað.

Til skýringar vísar Sævar til kvikmyndarinnar Gravity með leikkonunni Söndru Bullock.

„Þangað til skapar svona geimrusl mikla hættu, ekki bara fyrir geimstöðina, heldur líka fyrir veðurtungl eða fjarskiptatungl,“ útskýrir hann.

Sandra Bullock var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í …
Sandra Bullock var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Gravity. Ljósmynd/Warner Bros. Pictures

Fyrri tilraunir ekki í sama návígi við geimstöðina

Nú virðist sem skýið hafi aðeins færst út fyrir helsta áhættusvæði geimstöðvarinnar en þó er enn verið að reyna að fá betri mynd af því hve vítt agnirnar dreifðust.

Indland, Bandaríkin og Kína hafa öll framkvæmt sambærilegar tilraunir í gegnum tíðina og þó þær séu allar afar skaðlegar, að mati Sævars, hafa þær þó ekki verið í svona miklu návígi við sporbraut geimstöðvarinnar og þannig ógnað með sama hætti þeim hagsmunum sem undir eru, sem og lífum geimfaranna.

Hraðinn á því sem lendir á sporbraut í kringum jörðina …
Hraðinn á því sem lendir á sporbraut í kringum jörðina er um 26 þúsund kílómetrar á klukkustund. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert