„Allar hendur vel þegnar“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eggert Jóhannesson

Rúmlega tíu þúsund manns, 60 ára og eldri, voru boðaðir í örvunarskammt við kórónuveirunni í Laugardalshöll í dag. Um 3.500 þeirra höfðu þegið boðið þegar mbl.is náði tali af Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í hádeginu.

„Mér sýnist þetta stefna í svipaða þátttöku og var í gær, eða um 70%,“ segir hún.

Fólk sem ætli að standa sína plikt

Innt eftir því segist hún ekki finna fyrir því að fólk sé stressað fyrir bólusetningunni. Fólk ætli bara að „afgreiða þetta“ eins og hún orðar það.

„Það er svolítið stemningin. Þetta er náttúrulega mikið af eldra fólki, fólk sem ætlar bara að standa sína plikt og klára þetta. Þetta hefur bara gengið eins og í sögu og engar óvæntar uppákomur.“

Spurð segir hún ýmsar ástæður geta verið fyrir því að þátttaka í þessum aldurshópi hafi ekki verið meiri fram að þessu. Kveðst hún þó binda vonir um að þátttakan muni aukast með tímanum.

„Margir í þessum aldurshópi eru líka að fá inflúensubólusetninguna á þessum tíma ársins þannig að þeir einstaklingar eru kannski ekki að komast í örvunarskammt einmitt núna en munu vonandi koma síðar. Ég held að þátttakan verði mun betri að nokkrum vikum liðnum þegar átakið klárast.“

Um 30 hjúkrunarfræðinga þarf til að sinna bólusetningum við kórónuveirunni …
Um 30 hjúkrunarfræðinga þarf til að sinna bólusetningum við kórónuveirunni á hverjum degi. Eggert Jóhannesson

Þjónusta heilsugæslustöðvanna skert 

Hvernig hefur gengið að manna þessar bólusetningarvaktir?

„Við erum að taka um þrjátíu hjúkrunafræðinga til okkar á hverjum degi. Það er náttúrulega mikil blóðtaka af heilsugæslustöðvunum þannig að þjónustan þar skerðist óneitanlega á meðan. Svo er töluvert af hjúkrunarfræðingum sem eru komnir á lífeyri í tímavinnu hjá okkur.“

Þá hafi skólastjórnendum verið tilkynnt um að heilsuvernd skólabarna gæti einnig fundið fyrir ástandinu þar sem fjöldi skólahjúkrunarfræðinga hafi verið fengnir til að aðstoða við bólusetningar.

„Það eru allar hendur vel þegnar. Ef það eru einhverjir hjúkrunarfræðingar þarna úti sem hafa áhuga á að hjálpa til þá mega þeir endilega hafa samband við okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert