Vinnustaðakeppnin Reddum málinu lauk í dag á degi íslenskrar tungu og fóru Menntaskólinn á Tröllaskaga, Elko og Advania með sigur úr býtum.
Þetta kemur fram í tilkynningu keppninnar.
Reddum málinu er samstarfsverkefni Almannaróms - Miðstöðvar máltækni, Háskólans í Reykjavík og Símans. Markmið keppninnar var að safna raddsýnum, eða lesnum setningum á íslensku, frá sem flestum. Verða sýnin nýtt til tækniþróunar sem á að auðvelda tækjum að skilja íslenskt mál.
Keppt var í þremur flokkum þar sem fyrirtæki og stofnanir lásu texta í gegnum tölvu eða snjalltæki. Menntaskólinn á Tröllaskaga hafnaði í fyrsta sæti í flokki lítilla fyrirtækja, Elko sigraði flokk millistórra fyrirtækja og Advania sigraði flokk stórra fyrirtækja.
Lesnar voru upp stuttar setningar á íslensku sem að fóru í gagnagrunn Samróms sem er lausn sem safnar raddsýnum og er notuð til að kenna tækjum að skilja íslenskt tungumál. Nú þegar eru sýni frá yfir 18 þúsund einstaklingum í gagnagrunninum með upplestri á 1.100.000 yfirförnum setningum.
„Tæknin teygir anga sína inn í alla kima samfélagsins, við erum orðin háð henni við leik og störf. Þróun tallausna í snjalltækjum er hröð og ljóst að tæknin muni snerta á enn fleiri þáttum okkar daglega lífs í náinni framtíð.
Við þurfum því að kenna tækjunum okkar að skilja íslensku, til að við getum talað við tækin á íslensku, og þau geti svarað okkur á íslensku. Aðeins þannig tryggjum við framtíð íslenskunnar og sjáum til þess að tungumálið okkar, saga og menning verði hluti af stafrænni framtíð,“ segir í tilkynningunni.