Degi íslenskunnar fagnað í Ósló

Móttaka íslenska sendiráðsins í Ósló í embættisbústaðnum á Bygdøy í …
Móttaka íslenska sendiráðsins í Ósló í embættisbústaðnum á Bygdøy í dag var vel sótt og kynntu tveir norskir höfundar þar verk sín sem hvor tveggju hafa sterka Íslandstengingu. Ljósmynd/Sendiráð Íslands í Ósló

„Það hefur verið hefð hjá sendiráðinu síðustu ár að halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan, sem kemur auðvitað af þeim sterku menningartengslum okkar við Noreg, það er svo margt sem bindur okkur saman,“ segir Karí Jónsdóttir, staðgengill sendiherra og menningarfulltrúi íslenska sendiráðsins í Ósló, í samtali við mbl.is, en þar var í dag blásið til hátíðarhalda í tilefni dags okkar ástkæru ylhýru tungu sem sífellt á undir högg erlendrar áhrifaholskeflu að sækja.

Tveir norskir rithöfundar kvöddu sér hljóðs í embættisbústaðnum á Bygdøy og kynntu nýútkomin verk sín í samstarfi við bókaforlögin Solum Bokvennen og Cappelen Damm.

Ræddi Kristian Breidfjord þar um Prolog på jorden sem hefur að geyma ljóð íslenskra skálda færð í norskan búning með því sem á norsku kallast gjendiktning, þýðingarafbrigði sem felur í sér að frumtextinn, oftast kveðskapur, er ekki þýddur frá orði til orðs heldur inntaki hans og anda skilað yfir á nýtt tungumál þannig að í raun verður til sjálfstæð skáldskaparafurð úr frumefninu án þess að safinn sé kreistur úr eljuverki upphafsskáldsins.

Höfundarnir sem urðu fyrir valinu hjá Breidfjord eru Sigurður Pálsson, Hannes Pétursson, Jón úr Vör, Steinn Steinarr og Jóhann Sigurjónsson.

Frá vinstri: Kristian Breidfjord rithöfundur, Karí Jónsdóttir menningarfulltrúi, Mette Karlsvik, …
Frá vinstri: Kristian Breidfjord rithöfundur, Karí Jónsdóttir menningarfulltrúi, Mette Karlsvik, rithöfundur og blaðamaður, Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra, Aslaug Gaundal, markaðsfulltrúi hjá Solum Bokvennen, og Kirsti MacDonald Jareg rithöfundur. Ljósmynd/Sendiráð Íslands í Ósló

Kirsti MacDonald Jareg bregður hins vegar upp lifandi frásögnum af íslenskum þjóðháttum í riti sínu Island – En reiseskildring og fjallar um bjargsig, lundaveiði, sjósókn, lopapeysur og sauðskinnsskó, en jafnframt bankahrun, laxveiði og uppruna Íslendinga. „Nær Íslandi kemstu ekki nema þú farir þangað,“ skrifar Torbjørn Færøvik rithöfundur í umfjöllun sinni um bókina.

Fullt var út úr dyrum í embættisbústaðnum þar sem lítill hörgull er á menningaruppákomum þessa dagana, en skemmst er að minnast kynningar Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og doktors í norrænum fræðum, á bók sinni Kolbeinsey 26. október þar sem fulltrúar Morgunblaðsins og mbl.is létu sig ekki vanta svo sem lesa mátti um í þessum miðlum dagana á eftir.

Bækurnar sem kynntar voru í móttöku sendiráðsins í dag í …
Bækurnar sem kynntar voru í móttöku sendiráðsins í dag í tilefni dags íslenskrar tungu. Ljósmynd/Sendiráð Íslands í Ósló

Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra bauð gesti velkomna og flutti inngangsávarp þar sem hún tíundaði þýðingu dags íslenskrar tungu, ræddi um listaskáldið góða Jónas Hallgrímsson, nýyrðasmíð hans auk ævarandi mikilvægis þess að hlúa að íslenskri tungu og sinna þýðingum hennar á erlend mál af kostgæfni svo fleiri fengju notið græðlinga af meiði bókaþjóðarinnar í norðri.

Frá vinstri: Harpa Ósk Einarsdóttir, Freydís Heiðarsdóttir, Inga Þyrí Þórðardóttir, …
Frá vinstri: Harpa Ósk Einarsdóttir, Freydís Heiðarsdóttir, Inga Þyrí Þórðardóttir, Rakel Lindberg Jónsdóttir og Kristjana Vera Mjallardóttir. Ljósmynd/Sendiráð Íslands í Ósló

Karí kveður boðsgesti ekki hafa látið sitt eftir liggja og hafi þátttaka verið framar vonum. „Hér var fullt út úr dyrum og þetta var virkilega gaman. Hér voru okkar tengiliðir úr norska bókmenntaheiminum en líka Íslendingar sem tengjast myndlist, arkítektúr og Íslendingafélögum auk norskra gesta meðal annars frá bókaforlögum og norska utanríkisráðuneytinu,“ sagði menningarfulltrúinn af hátíðarhöldum í tilefni dags íslenskrar tungu í ranni frændþjóðarinnar.

Gestir ræða landsins gagn og nauðsynjar í embættisbústað sendiráðsins. Karí …
Gestir ræða landsins gagn og nauðsynjar í embættisbústað sendiráðsins. Karí Jónsdóttir, staðgengill sendiherra og menningarfulltrúi íslenska sendiráðsins í Ósló, kveður það hafa verið hefð hjá sendiráðinu síðustu ár að halda dag íslenskrar tungu hátíðlegan. Ljósmynd/Sendiráð Íslands í Ósló
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert