Gárurnar líklegast af völdum bilunar í dælustöð

Dælustöð Orkuveitu Reykjavíkur við Faxaskjól.
Dælustöð Orkuveitu Reykjavíkur við Faxaskjól. Orkuveita Reykjavíkur

Bilun í skólpdælustöð við Faxaskjól er líklegasta skýringin á hinum dularfullu gárum sem sáust í sjónum vest­anmeg­in við flug­braut­ina á Reykja­vík­ur­flug­velli og Ægissíðu á sunnudag. Þetta segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því á mbl.is í gær að líklega væru gárurnar af völdum mengunar frá skólpdælustöðinni í Ánanaustum sem var tímabundið tekin úr rekstri vegna viðhalds. Nú liggur fyrir að svo var ekki.

„Þetta tengist Ánanaustum ekki á neinn hátt. Það voru hins vegar reglubundnar mælingar vegna viðhaldsins á dælustöðinni í Ánanaustum sem leiddu í ljós hærra gildi kólígerla á svæðinu.“

Þegar farið var í að skoða af hverju hækkunin stafaði kom í ljós að dæla í skólpdælustöðinni við Faxaskjól hinum megin við ströndina hafi stöðvast og ekki sent út villuboð, að sögn Ólafar.

„Hún var sett aftur í gang um leið og við uppgötvuðum þetta.“

Innt eftir því segir hún kólígerlana sem farið hafi í sjóinn við bilun dælunnar að öllum líkindum vera löngu dauða.

„Líftími gerlanna er mislangur eftir árstíma, birtustigi, veðri og annað slíkt en á þessum árstíma er hann um níu klukkustundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert