Helgi kveðst iðrast innilega

Helgi Jóhannesson.
Helgi Jóhannesson. Ljósmynd/Aðsend

Helgi Jóhannesson, fráfarandi yfirlögfræðingur Landsvirkjunar, segir framkomu sína gagnvart konum hafa verið óviðunandi í gegnum tíðina og biðst fyrirgefningar í yfirlýsingu sem hann birti á facebooksíðu sinni í kvöld.

Helgi lét af störfum sem yfirlögfræðingur Landsvirkjunar og sagði sig sömuleiðis úr stjórn Ferðafélags Íslands eftir að hafa fengið formlega áminningu í starfi sínu hjá Landsvirkjun vegna ótilhlýðilegrar háttsemi í garð kvenkyns samstarfsmanns.

Ekki treyst sér inn í umræðuna

Helgi segir að sér sé ljóst að orðfæri hans og hegðun hafi sært, móðgað og látið samferðafólki líða illa í návist hans: „[Á] því biðst ég fyrirgefningar.

Ásetningur minn hefur aldrei staðið til að meiða eða særa, en mér er það nú ljóst að ég hef oft og tíðum farið óvarlega í samskiptum, nokkuð sem ég hugsaði ekki út í þegar atvik áttu sér stað. Fyrir það iðrast ég innilega.“

Hann segist ekki hafa tjáð sig opinberlega hingað til vegna þess að hann hafi einfaldlega ekki treyst sér til þess. Það hafi ekki verið vegna þess að hann tæki umræðuna ekki alvarlega: „Ég ætla ekki að fara efnislega ofan í þær ásakanir sem á mig hafa verið bornar. Það hjálpar engum að deila um þær atvikalýsingar.“

Léttvæg undankomuleið

Helgi segist vita það að einföld afsökunarbeiðni og iðrun sé „léttvæg undankomuleið úr þeim sárindum“ sem hann hafi valdið.

„Ég hef þó ekki annað fram að færa og bið þess innilega að fyrirgefningarbeiðni mín verði tekin til greina. Ég er hvenær sem er tilbúinn til að hitta hvern þann sem ég hef misgert við með hegðun minni og ræða málið og ítreka afsökunarbeiðni augliti til auglitis.“

Hann segist hafa verið að vinna í sjálfum sér með aðstoð fagaðila.

„Það er ævilangt verkefni að verða að betri manni og ég er að taka það verkefni alvarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert