Íslenskur karlmaður liggur nú undir grun í Hollandi um að hafa frelsissvipt íslenska konu og nauðgað henni. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins sem segja manninn vera á fimmtugsaldri og auk þess hafi hann nýlega hlotið dóm hérlendis fyrir nauðgun.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, staðfestir í samtali við mbl.is að deildin sé með ofbeldismál til rannsóknar sem átti sér stað í Hollandi. Hann kvaðst þó ekki geta tjáð sig um málið frekar.
Fréttablaðið greinir frá því að brotaþoli í málinu hafi gefið skýrslu bæði í Hollandi og á Íslandi en lögreglan í Amsterdam reyni nú að hafa uppi á sakborningnum. Þá herma heimildir blaðsins að maðurinn hafi tvívegis verið dæmdur fyrir nauðgun á Íslandi og síðast árið 2018.
Þar sem bæði sakborningur og brotaþoli í málinu eru Íslendingar gætu íslensk yfirvöld tekið yfir lögsögu í málinu og refsað samkvæmt íslenskum hegningarlögum.