Keyrði fram á grjóthrun í Súðavíkurhlíð

Grjóthrun úr Súðarvíkurhlíð er algengt.
Grjóthrun úr Súðarvíkurhlíð er algengt. Ljósmynd/Snorri G. Bergsson

Talsvert grjóthrun blasti við vegfarendum á leið um Súðavíkurhlíð fyrr í dag en stórir grjóthnullungar höfðu fallið úr hlíðinni og lágu á og við veginn.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þurfti ekki að grípa til lokunar enda komst umferð fram hjá og þveraði grjótið einungis aðra akreinina. Búið er að fjarlægja hnullungana sem höfðu fallið úr hlíðinni.

Snorri G. Bergsson var á leið heim úr vinnu rétt fyrir fjögur þegar hann keyrði fram á grjóthrunið og tók þá meðfylgjandi myndir. 

Ljósmynd/Snorri G. Bergsson

„Fyrst sá ég eitthvað af veginum úr fjarlægð og þegar ég kom nær þá sá ég að þetta voru björg. Síðan vildi ég ekki stoppa því þetta var undir hlíðinni og það var augljóslega hætta enn þá,“ sagði Snorri í samtali við mbl.is. 

Grjóthrun úr Súðavíkurhlíð er heimamönnum vel kunnugt fyrirbæri og er ekki óalgengt að íbúar keyri fram á grjót á veginum. Hafa íbúar í nágrenni lengi barist fyrir gerð ganga til að komast hjá þeirri hættu sem fylgir þessum vegarkafla. Snorri segir hrunið í dag undirstrika brýna þörf á göngum enda stafi vegfarendum ekki einungis hætta af snjóflóði.

Ljósmynd/Snorri G. Bergsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka