Minnst 26 smit hafa komið upp hjá nemendum og starfsfólki Kársnesskóla í yfirstandandi bylgju kórónuveirufaraldursins. Þar af hafa 22 börn smitast og fimm starfsmenn. Þetta staðfestir Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla, í samtali við mbl.is.
Innt eftir því segir hún erfitt að útlista nákvæmlega hve margir nemendur og starfsfmenn séu annað hvort í smitgát eða sóttkví vegna smitanna. Smitin sem greinst hafa fram að þessu séu þó flest bundin við yngsta stig skólans.
Þrátt fyrir mikinn fjölda smita undanfarna daga hefur starfsmönnum skólans tekist vel að halda sjó, að sögn Bjargar.
„Við höfum getað tekið á móti öllum nemendum þegar þeir hafa snúið aftur í skólann og ekki þurft að fella neina tíma niður þrátt fyrir að starfsmenn hafi þurft að fara í smitgát, sóttkví eða einangrun en þetta hefur alltaf einhver áhrif á skólastarfið.“
Gripið hefur verið til ráðstafana til að draga úr blöndun nemenda í skólanum, t.d. með því að skipta rýmum skólans upp í hólf og láta nemendur í eldri deildum borða nestið sitt í kennslustofum sínum en annars borða þeir í matsal skólans.
„Við höfum gengið lengra en reglugerðin segir til um og erum að ganga eins langt og við getum án þess að skerða starfsemina að einhverju verulegu marki en við þurfum að stíga stærri skref.“
Eru það vonbrigði að núverandi ráðstafanir hafi ekki dugað til?
„Alveg gríðarleg. Það segir eiginlega svolítið um það hversu skæð þessi veira er. Manni fyndist við hefðum átt að ná betri árangri en svo hefur þetta ekki bara með skólann að gera heldur líka umhverfið, íþróttafélög, leikskóla og allskonar. Á meðan veiran er svona skæð þarna úti þá er erfitt að ætla einangra innan skólans. Þetta er þyngra núna en nokkrum tímann.“