Sagt upp eftir áreitni og leiddist út í óreglu

Telma segir eitt það sárasta af öllu hafa verið viðbrögð …
Telma segir eitt það sárasta af öllu hafa verið viðbrögð stéttarinnar við frásögn vinkonu sinnar. Mynd úr safni. AFP

„Ung kona, hæfileikarík og metnaðarfull, nýútskrifuð úr laganámi, ræður sig til starfa hjá stórri lögmannsstofu í Reykjavík. Starfsmaður á stofunni áreitir hana ítrekað kynferðislega og gengur mjög langt í þeim efnum.“

Svona hefst frásögn Telmu Halldórsdóttur um vinkonu sína sem lést fyrir aldur fram árið 2010. 

Telma var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 en heimildir fréttastofu Vísis herma að sá lögfræðingur sem sagan vísar til sé Helgi Jóhannesson, sem samdi um starfslok sem yfirlögfræðingur Landsvirkjunar fyrir skemmstu.

Helgi sendi í kvöld frá sér afsökunarbeiðni þar sem hann baðst fyrirgefningar á því hvernig hann hefði komið fram við konur.

Stakk tungu upp í eyrað á henni

Hún reyndi að höndla, vera töff og vera ein af strákunum fyrst um sinn, en alltaf gekk þetta lengra og lengra. Ég fékk sjálf sjokk þegar þessi maður stakk tungunni upp í eyrað á henni og greip í brjóstin á henni fyrir framan mig, allt samt svona „djók“.

Hún fékk loksins nóg þegar hann skellti henni á skrifborðið hjá sér og ætlaðist til þess að hún svæfi hjá sér. Hennar viðbrögð fyrir utan sjokkið var að tala við sinn yfirmann sem var kona og greina frá áreitninni. Nokkru seinna var hún kölluð inn á fund nokkurra eigenda þar sem henni var sagt upp störfum,“ segir Telma í Facebook-færslunni sinni. Vinnustaðurinn var lögmannsstofan LEX.

Sárnaði viðbrögð stéttarinnar

Telma segir eitt það sárasta af öllu hafa verið viðbrögð stéttarinnar við frásögn vinkonu sinnar: „[M]enn sem við höfðum talið vini okkar, gerðu lítið úr henni, sögðu hana athyglissjúka og ljúga og því miður voru það ekki bara menn því þó nokkrar konur sögðu það sama.”

Önnur vinkona sagði að í kjölfar ofangreindrar atburðarásar hafi fljótlega farið að halla mjög undan fæti hjá konunni, hún hafi byrjað í óreglu og barist við bæði kvíða og þunglyndi. Þá vísar hún í minningargreinar um konuna: 

„Kannski lagðir þú of mikið á þig, því að loknu lögfræðináminu fór að halla undan fæti og því fór sem fór.“

Í samræmi við þágildandi verkferla

Telma sagðist í viðtalinu í kvöld vilja réttlæti fyrir vinkonu sína og að héðan í frá verði tekið á málum sem þessum „frá A til Ö“. 

LEX sendi skriflega yfirlýsingu sem svar við umfjölluninni en þar segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem núverandi stjórnendur hafi aflað um málið hafi verið brugðist við því í samræmi við þá verkferla sem þá hafi verið til staðar. 

Þegar litið er tilbaka má velta fyrir sér hvort brugðist hafi verið nægjanlega vel við málinu. Núverandi stjórn LEX hyggst efna til sérstakrar skoðunar á því hvort einhver óupplýst mál kunni að hafa átt sér stað hjá fyrirtækinu á síðustu árum. LEX tekur skýra afstöðu gegn hvers konar áreitni og kynferðislegu ofbeldi,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert