Útvarp í öllum göngum á næstu árum

Héðinsfjarðargöng.
Héðinsfjarðargöng. Morgunblaðið/Sigurður Ægisson

Vegagerðin stefnir að því að Héðinsfjarðargöng og Múlagöng verði komin í útvarpssamband á næsta ári og göngin um Almannaskarð líklega líka eða fljótlega eftir það. Önnur göng sem ekki eru með útvarp komi síðan í kjölfarið. Í nýjum göngum eru settar upp þrjár stöðvar; Rás 1 og 2 fyrir Ríkisútvarpið og Bylgjan.

Útvarp og farsími eru meðal öryggisatriða sem fólk vill hafa í jarðgöngum og öryggisfjarskipti (Tetra) eru talin mikilvæg. Í reglugerð sem sett var fyrr á þessu ári um öryggiskröfur fyrir jarðgöng eru göng flokkuð, meðal annars eftir lengd, aldri og umferð. Ekki er gert ráð fyrir búnaði til neyðarsendinga útvarps nema 2.000 ökutæki fari um akrein á ári að meðaltali og göngin séu yfir kílómetri að lengd. Aðeins Hvalfjarðargöng falla undir þessa skilgreiningu og þar nást rásir Ríkisútvarpsins og Bylgjan, og óskað hefur verið eftir að útsendingum K100 verði bætt við.

Búnaðurinn var einnig settur upp í Dýrafjarðargöngum áður en þau voru opnuð á síðasta ári. Þá næst útvarp í Vaðlaheiðargöngum sem einnig eru meðal nýjustu vegganga landsins. Ástæðan fyrir því að umræddar þrjár útvarpsstöðvar eru settar upp er sú að þær nást víðast um þjóðvegi landsins, samkvæmt svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Dýrafjarðargöng voru byggð af Vegagerðinni en Hvalfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng af einkafyrirtækjum.

Hægt að tala inn á útvarpið

Vegagerðin stefnir að því að bæta úr þessum málum í eldri göngum á næstu árum, af öryggisástæðum. Í svari við fyrirspurn Samgöngufélagsins um ástæður þess að búnaðurinn hafi verið settur upp í Dýrafjarðargöngum, þrátt fyrir að það hafi ekki verið skylt samkvæmt þágildandi reglugerð, kemur fram að eftir að Vegagerðin hóf vöktun á jarðgöngum allan sólarhringinn, alla daga ársins, falli útvarpssamband undir viðurkenndan öryggisbúnað enda sé hægt að tala inn á útvarp vegfarenda í göngum.

Vegagerðin hafi því ákveðið að stefna að því að koma upp slíkri þjónustu í öllum göngum. Stjórnstöð Vegagerðarinnar getur yfirtekið sendingar allra stöðvar sem eru virkar í viðkomandi göngum og gefið þannig ökumönnum leiðbeiningar, ef eitthvað kemur upp á. Fjármögnun uppsetningar í eldri göngum verður í gegnum fjárveitingar til viðhalds hjá Vegagerðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert