Samráðshópur um Skotfélag Reykjavíkur (SR) í Álfsnesi á að skila tillögum um framtíðartilhögun aðstöðunnar og mögulegt framtíðarsvæði fyrir SR til borgarráðs fyrir 1. desember 2021. Í samráðshópnum sitja tveir fulltrúar Reykjavíkurborgar og tveir frá SR.
Þetta kemur fram í svari íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur (ÍTR) við fyrirspurn íbúaráðs Kjalarness 14. október sl. um hvort unnið hafi verið að því að finna skotæfingafélögunum í Álfsnesi nýja aðstöðu.
Þar segir og að borgarráð hafi ákveðið 15. apríl sl. að senda tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um framtíð Skotfélags Reykjavíkur til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Tillagan kvað á um skipun fyrrnefnds samráðshóps.
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð samþykkti 28. júní að fulltrúar ÍTR og Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) ræddu við fulltrúa SR og töluðu einnig við fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs (USK) og heilbrigðiseftirlitsins (HER).
Í yfirferð ÍTR og ÍBR um málið kom m.a. fram að SR er elsta íþróttafélag landsins, stofnað 2. júní 1867. Áætlað er að 6-8 þúsund manns noti svæðið í Álfsnesi á hverju ári. Auk félagsmanna SR eru það almennir iðkendur, þátttakendur í skotvopnaprófum lögreglunnar og Umhverfisstofnunar auk þeirra sem taka skotpróf vegna hreindýraveiða.
Skotsvæði SR í Grafarholti var lokað árið 2000. Þá var gerður afnotasamningur við Reykjavíkurborg til 20 ára. Nýtt skotsvæði á Álfsnesi var opnað árið 2008.
Skotsvæðið var byggt upp og kostað af Reykjavíkurborg. Um 340.000 rúmmetrar af jarðvegi voru fluttir á svæðið í 20.000 vörubílaferðum, reistar voru hljóðmanir til að minnka hljóðmengun í byggð á Kjalarnesi. Auk þess voru reist félagsheimili, sex kastturnar fyrir leirdúfuvélar, fjórir ólympískir skeet-vellir eftir ÓL-reglum og riffilskýli. „Var ákveðið að setja svæðið á Álfsnes, eftir að skoðaðir höfðu verið um 20 staðir á höfuðborgarsvæðinu. Reiknuðu allir með að þetta svæði yrði varanleg staðsetning,“ segir í svarinu. Þar kemur einnig fram að skotsvæðið komist næst því að vera þjóðarleikvangur skotíþrótta á Íslandi. Það var keppnisvöllur á Smáþjóðaleikunum árið 2015.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.