Héraðsdómur Vesturlands sakfelldi í dag mann fyrir kynferðisbrot og ærumeiðingar gegn fyrrum sambýliskonu sinni og fyrir að hafa móðgað hana og smánað með því að birta mynd af brjósti konunnar á vefsíðu ásamt því að senda sömu mynd á annan einstakling.
Maðurinn var dæmdur til 60 daga fangelsisvistar en refsingin var skilorðsbundin til tveggja ára. Auk þess var þeim seka gert að greiða konunni 300.000 krónur í miskabætur.
Konan sendi myndina á manninn í gegnum Snapchat en hann vistaði myndina án samþykkis og vitneskju hennar. Hún krafðist 1.500.000 króna í miskabætur vegna gjörða mannsins.
Þær greinar sem ákærði gekkst við að hafa brotið gegn voru 233. gr. b. og 199. grein almennra hegningarlaga.
Það var metið manninum til refsiþyngingar að hann hafi brotið trúnað konunnar með því að vista myndina og dreifa án hennar vitneskju. Við ákvörðun refsingar var þó skýlaus játning ákærða metin honum til málsbóta auk hreins sakavottorð hans og ungs aldurs.