Aukafundur fer fram í trúnaðarráði Eflingar á föstudaginn, þann 19. nóvember. Þetta kemur fram á heimasíðu Eflingar, en fundurinn mun fara fram á Zoom. Trúnaðarráðið fundaði síðast í liðinni viku, en ráðið fundar venjulega einu sinni í mánuði.
Samkvæmt heimildum mbl.is verður Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formanni Eflingar, og Viðari Þorsteinssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra, boðið að koma á fundinn.
Sólveig mun ítrekað hafa óskað eftir því að fá að koma á fundinn í síðustu, en þegar henni var loksins svarað hætti hún við. Heimildirnar herma að í staðinn hafi verið ákveðið að bjóða bæði Sólveigu og Viðari að koma á aukafund trúnaðarráðsins og verða þau því væntanlega boðuð á fundinn á föstudaginn.
Samkvæmt sömu heimildum var ákveðið að ræða ekki sérstaklega um Sólveigu og Viðar í tengslum við átökin innan Eflingar á síðasta fundi, þar sem þau voru ekki viðstödd.
Mikil ólga var innan félagsins vegna óánægju starfsfólks á skrifstofu með framkomu Sólveigar. Samkvæmt ályktun sem trúnaðarmenn Eflingar afhentu stjórnendum í júní síðastliðnum hafði starfsfólkið upplifað vanlíðan og óöryggi á vinnustaðnum. Var Sólveig meðal annars sökuð um að halda „aftökulista“ og að fremja alvarleg kjarasamningsbrot á borð fyrir fyrirvaralausar uppsagnir. Á starfsmannafundi í lok október vildi enginn bera þær ásaknir til baka og ákvað Sólveig í kjölfarið að segja af sér sem formaður.
Sólveig hefur sakað starfsfólkið um að hafa hrakið sig úr formannsstólnum og hafa aldrei gefið sér vinnufrið eða haft skilning á baráttunni.
Á fundi trúnaðarráðsins í síðustu viku var samþykkt ályktun um Sólveigu þar sem henni var þakkað fyrir linnulausa baráttu sína fyrir hagsmunum Eflingarfélaga. Fram kom að Sólveig hefði staðið við fyrirheit um breytingar í Eflingu og að þjónusta félagsins hefði tekið miklum framförum í hennar stjórnartíð. Mikilvægust væri þó umbreyting félagsins yfir í baráttusamtök. Sólveig hefði sýnt að Efling gæti náð raunverulegum árangri í baráttu verka- og láglaunafólks. Ályktuninni lauk á þeim orðum að trúnaðarráðið harmaði brotthvarf hennar.
Í trúnaðarráði Eflingar sitja um 130 manns, þar á meðal stjórn félagsins.