Björguðu ferðamönnum úr sjálfheldu

Björgunarsveitarmenn komu ferðamönnum til aðstoðar í Ingólfsfirði á Ströndum í …
Björgunarsveitarmenn komu ferðamönnum til aðstoðar í Ingólfsfirði á Ströndum í gærkvöldi. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Litlu munaði að illa færi þegar ferðamenn festu bíl sinn utanvegar í Ingólfsfirði á Ströndum í gærkvöldi. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

„Mér skilst þau hafi verið komin inn á veg þar sem er engin þjónusta, lent þar í vandræðum og fest bílinn sinn í snjó, hálf utan vegar.“

Björgunarsveitin í nágrenninu fyrir tilviljun

Tilviljun hafi ráðið því að björgunarsveitarmenn hafi verið í nágrenninu á sama tíma og gátu þeir því komið ferðamönnunum til aðstoðar, að sögn Davíðs.

„Það vildi svo heppilega til að það var björgunarsveitarbíll þarna nálægt sem gat farið til þeirra, spilað bílinn þeirra upp og aðstoðað þau við að komast til baka. Þannig það leystist bara vel. Maður hefði samt ekki viljað vita af þeim hafandi runnið út af veginum og þar fram af því það er ansi mikill bratt þar sem þau festu sig.“

Vonskuveður var víða um landið í gærkvöldi og í nótt en Veðurstofan hafði gefið út gular viðvaranir á norðaustur-, austur- og suðurhlutalandsins vegna þess í gær. Þrátt fyrir það hafi nóttin verið róleg, segir Davíð inntur eftir því. 

„Óveðrið var aðallega þarna fyrir austan og að því er ég best veit gekk þetta bara stóráfallalaust fyrir sig. Það voru allavega engar björgunarsveitir kallaðar út vegna veðurs.“

Þannir allir þínir menn ættu að vera úthvíldir í dag?

„Já, þeir eru það. Það eru allir bara klárir að bregðast við ef eitthvað gerist á næstunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert