Minniháttar umferðarslysum hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu í kvöld, að sögn Hannesar Þórs Guðmundssonar, varðstjóra umferðardeildar lögreglu, en mikil hálka er á vegum úti og snjó kyngir niður.
Ekki liggur fyrir um hversu marga árekstra er að ræða en þeim tók að fjölga eftir að byrja tók að snjóa.
„Það er náttúrulega fljúgandi hálka á götunum. Menn eru að lenda saman og missa stjórnina á ökutækjunum og lenda út af en engin slys á fólki. Þetta eru bara minniháttar árekstrar,“ segir Hannes Þór varðstjóri í samtali við mbl.is.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki þurft að sinna neinum sjúkraflutningum vegna árekstranna.