Halldóra Sigríður Sveinsdóttir var í dag kosin 3. varaforseti Alþýðusambandsins á miðstjórnarfundi sambandsins í dag. Hún tekur við sætinu af Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, en hann tekur núna sæti 2. varaforseta af Sólveigu Önnu Jónsdóttur.
Sólveig Anna sagði sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir ASÍ í byrjun mánaðar samhliða afsögn hennar sem formaður stéttarfélagsins Eflingar.
Halldóra hefur verið formaður Bárunnar, sem starfar í Árnessýslu, frá árinu 2010 og er 61 árs gömul. „Hún hefur setið sem aðalmaður í miðstjórn ASÍ frá árinu 2018 og tekið þátt í fjölmörgum trúnaðarstörfum á vegum hreyfingarinnar að auki,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.
Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar á Sauðárkróki, kemur inn sem aðalmaður í miðstjórn sambandsins.