Helga Vala Helgadóttir hefur tekið við formennsku þingflokks Samfylkingarinnar, en svo hljóðandi tillaga formanns var samþykkt á þingflokksfundi í dag.
Helga Vala hefur setið á þingi fyrir hönd Samfylkingarinnar frá árinu 2017. Hún var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á árunum 2017 - 2019 og formaður velferðarnefndar 2019 - 2021.
Þórunn Sveinbjarnardóttir var auk þess kjörin varaformaður þingflokks og Kristrún Frostadóttir ritari þingflokks á fundinum, að því er segir í tilkynningu.
„Þrátt fyrir sérstakt upphaf kjörtímabils erum við í Samfylkingunni full tilhlökkunar að þing komi saman enda mörg brýn verkefni framundan auk þess sem við höfum undanfarnar vikur unnið að mikilvægum málum sem við viljum setja á dagskrá,” er haft eftir Helgu Völu í tilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér.