Farþegi hefur verið settur í bann hjá Icelandair og verður hér eftir meinað að fljúga með flugfélaginu, eftir að hann veittist að starfsmönnum félagsins við innritun síðasta sunnudag.
Lögreglu hefur verið gert viðvart um málið og starfsmönnum hefur verið veitt áfallahjálp.
„Ég get staðfest að farþegi veittist að starfsmanni okkar við innritun í flug síðastliðinn sunnudag. Icelandair leggur höfuðáherslu á að tryggja öryggi starfsfólks og farþega og hvers kyns ofbeldi er aldrei liðið. Samkvæmt öryggisferlum félagsins í tilfellum sem þessum, þar sem ofbeldi er beitt, er viðkomandi aðila ekki heimilt að ferðast með félaginu um óákveðinn tíma, a.m.k. á meðan málið er í frekari skoðun,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi, Icelandair í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is.
Rúv hefur eftir heimildum sínum að farþeginn, sem er íslenskur, hafi orðið illur við starfsmann Icelandair á innritunarborði vegna þess að hann talaði ekki íslensku. Starfsmaðurinn kallaði þá til yfirmann sinn, sem talaði heldur ekki íslensku, og brást farþeginn við með því að ráðast að öðrum þeirra með höggum.