Ný skjálftahrina í grennd við Grindavík

Grindavík. Í baksýn er fjallið Þorbjörn.
Grindavík. Í baksýn er fjallið Þorbjörn. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðskjálfti af stærðinni 3,0 mældist þremur og hálfum kílómetra norðaustan við Grindavík upp úr klukkan 20 í kvöld. Þrjár tilkynningar um skjálftann bárust Veðurstofu í kvöld en enginn utan bæjarins hefur hringt inn.

„Það er ekki búin að vera mikil skjálftavirkni á þessu svæði síðan áður en gosið hófst. Eftir það dó skjálftavirknin út á meðan á því stóð. En núna er gosið búið að liggja niðri í um það bil tvo mánuði og aftur komin einhver hreyfing,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Segir Grindvíkinga ekki þurfa að hafa áhyggjur

Bjarki segir auðvitað óþægilegt að þessi skjálftahrina sé svona nálægt bænum en segir Grindvíkinga ekki þurfa að hafa of miklar áhyggjur:

„Það eru auðvitað flekaskil þarna og það er alls ekkert óalgengt að það sé skjálftavirkni þarna á þessu svæði.“

Skjálftavirkni kvöldsins.
Skjálftavirkni kvöldsins. Kort/Veðurstofa Íslands

Eftirskjálfti af stærðinni 2,5

Hann segir nokkra eftirskjálfta hafa komið í kjölfar skjálftans en sá stærsti þeirra mældist um 2,5 af stærð. Þannig megi flokka hræringarnar sem skjálftahrinu sem hófst klukkan 20 í kvöld.

„Það eru engar vísbendingar um að þetta tengist gosi, þetta eru bara venjulegar hreyfingar þarna. Það mælist að minnsta kosti enginn órói eða neitt,“ segir Bjarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert