„Þetta sveiflast svolítið og eins og við höfum áður sagt þá þarf að sjá þetta í stærra samhengi hvort þessi þróun haldi áfram næstu daga. Það væri óskandi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir en 144 greindust með Covid-19 innanlands í gær.
Er það töluverð fækkun frá deginum áður þegar vafasamt met var sett en þá greindust 206 smit innanlands.
Hertar sóttvarnaaðgerðir, þar sem 50 mega koma saman, tóku gildi á miðnætti á föstudagskvöld og hefur Þórólfur áður sagt að vika þurfi að minnsta kosti að líða til að hægt sé að sjá árangur þeirra aðgerða.
Smitum við landamæri hefur fjölgað nokkuð undanfarna daga en Þórólfur segir það Íslendinga sem koma í sýnatöku við komuna hingað.
„Þetta eru fyrst og fremst Íslendingar og fólk sem er með tengsl innanlands sem fer í sýnatökur við komuna og er að greinast. Einnig þeir sem eru ekki bólusettir og þurfa að fara þannig í sóttkví og tvær sýnatökur.“
Sóttvarnalæknir segir ekki nákvæmlega fylgst með því hvaðan fólk sem greinist er að koma:
„Það er mjög erfitt því að fólk fer í gegnum alls konar flugvelli, bíður lengi og það verður erfitt að staðsetja nákvæmlega hvaðan smitin eru.“