Segir Halldóru vera „bakherbergisstarfsmann“

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, og Hall­dóra Sig­ríður Sveins­dótt­ir, …
Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, og Hall­dóra Sig­ríður Sveins­dótt­ir, nýkjörinn þriðji varaforseti ASÍ og formaður Bárunnar. Samsett mynd

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, segir nýkjörinn þriðja varaforseta ASÍ „einn af dyggustu liðsmönnum gömlu verkalýðshreyfingarinnar“.

Þessi nýi varaforseti er Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, en hún var kjörin á miðstjórnarfundi ASÍ í dag. Sólveig var áður annar varaforseti sambandsins en hún sagði sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir ASÍ samhliða afsögn hennar sem formaður Eflingar.

Taka alla lýðræðislega stjórn kjaramála úr höndum launafólks

„Stóri draumur þessara gömlu leiðtoga var SALEK-samkomulagið, endanleg fullkomnun á því verkefni að taka alla lýðræðislega stjórn kjaramála úr höndum launafólks sjálfs og setja í hendur sérfræðinga í nefndum sem meta „svigrúmið“. Ágreiningi milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda yrði lokið í eitt skipti fyrir öll, sjálfstæður samningsréttur stéttarfélaga afnuminn og verkfallsvopnið aflagt,“ segir Sólveig í facebookfærslu í dag.

SALEK stendur fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga sem er afrakstur vinnu sem hófst árið 2013 með úttekt fjölda hreyfinga vinnumarkaðarins á heildarendurskoðun samningalíkansins. 

Því var ætlað að bæta þekkingu og vinnubrögð við gerð kjarasamninga með Norðurlönd sem fyrirmynd. „Markmiðið er að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis,“ segir í kynningarefni frá ASÍ um samstarfið. 

Segir Halldóru varðhund SALEK

Halldóra er að sögn Sólveigar einn helsti varðmaður SALEK-samkomulagsins sem átti að endurvekja undir nafninu Grænbók:

„Hún gekk svo langt að efna til sérstaks leynifundar sem haldinn var í febrúar þar sem 15 formönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins var boðið, en ekki mér (ég var á þessum tíma varaformaður Starfsgreinasambandsins). Umræðuefni leynifundarins var hvernig hægt væri að styðja við áframhald Grænbókarvinnunnar, framhjá lýðræðislegum stofnunum hreyfingarinnar og án þess að þurfa að taka tillit til sjónarmiða Eflingarfélaga og annara andstæðinga verkefnisins innan SGS.“

Halldóra starfi innan „bakherbergisins“

Sólveig segir Halldóru ekki hafa treyst sér til að rökræða málefnalega um þessa grænbókarvinnu innan miðstjórnar ASÍ eða öðrum félagslegum vettvangi hreyfingarinnar. „Það hentaði henni betur að makka að andstæðingum sínum fjarstöddum,“ segir Sólveig.

Hún segir Halldóru starfa innan bakherbergisins, sem sé notalegur klúbbur þar sem verkalýsðleiðtogar fái „sæti við borðið“ og láti mata sig á kynningum.

„En Halldóra mun að sjálfsögðu hefja vinnu af fullum krafti frá og með deginum í dag ásamt ASÍ og ríkisstjórninni við að endurvekja SALEK-drauminn. Ef sú vinna verður einhvern tíma kynnt fyrir félagsfólki í hreyfingunni þá spái ég því að það verði á formi glærukynningar frá sérfræðingi, en Halldóra víðs fjarri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert