Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata í liðnum þingkosningum, segir áhugavert og skondið að minnst hafi verið á fallbeygingu nafns hennar í minnisblaði fyrir nefndarálit kjörbréfanefndar, og að því hafi verið velt upp hvort að breyta ætti nafni hennar til að það myndi falla betur að íslenskri stafsetningu.
Í tísti sem Lenya birti á Twitter í dag má sjá skjáskot af texta skrifuðum upp úr minnisblaði fyrir nefndarálit kjörbréfanefndar, þar sem nafn Lenyu er til umræðu.
Segir þar: „Nafnið er ritað Lenya Run Taha Karim í þjóðskrá, svo að það er líklega of seint að mæla með rithættinum Lenja Rún Taha Karím, sem væri íslenskulegri. Aukaföllin Lenju yrðu þá betur í samræmi við íslenska stafsetningu en Lenyu.“
„Ég tók þessu ekkert nærri mér, mér fannst þetta bara fyndið að það sé yfirhöfuð verið að pæla í því að ég heiti einhverju öðruvísi nafni,“ segir Lenya í samtali við mbl.is, spurð út í þessar pælingar sem birtust á minnisblaðinu.
Að sögn Lenyu er lítið mál að fallbeygja nafnið hennar án þess að breyta þurfi rithætti þess með þeim hætti sem lagt er upp með í minnisblaðinu.
„Svo finnst mér líka bara fyndið að það sé verið að nýta dýrmæta starfskrafta þingsins í það að greina hvernig á að fallbeygja nafnið mitt og einhver grey starfsmaður sé látinn velta því upp hvort að ég ætti að breyta nafninu í Lenja með Joði og Karím með Í-i.“
Hahahaha juju ætli ég breyti ekki nafninu mínu eftir 21 ár í eitthvað sem meikar 0 sens á kúrdísku en er íslenskulegra og auðveldara að fallbeygja. Mannanafnanefnd samþykkti nafnið mitt á sínum tíma en skrifstofa Alþingis á erfitt með það 21 árum seinna pic.twitter.com/eL4LbbT3UV
— Lenya Rún (@Lenyarun) November 17, 2021