„Það var eitthvað við þessa stund“

Guðmundur segir að mikilvægasta hlutverk sjúkraflutningamanns í fæðingu sé að …
Guðmundur segir að mikilvægasta hlutverk sjúkraflutningamanns í fæðingu sé að halda andrúmsloftinu léttu. mbl.is/Unnur Karen

Guðmundur Guðjónsson sjúkraflutningamaður lenti heldur betur í skemmtilegri lífsreynslu um helgina þegar hann, fyrir ótrúlega tilviljun, tók á móti barni móður sem hann tók líka á móti barni hjá árið 2015. Í bæði skiptin var um að ræða óskipulagða heimafæðingu, og í bæði skiptin var móðirin komin af stað í fæðingu og því ekki um annað að ræða en að taka á móti börnunum heima.

Guðmundur varð eðlilega mjög hissa yfir þessum óvæntu endurfundum.

„Við erum að koma á staðinn og það er ljóst að það er stutt í fæðingu, þá kynni ég mig og tala við móðurina og þegar ég er að kynna mig þá spyr hún hvort það geti verið að ég hafi tekið á móti fyrra barninu hennar,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is

Hann segist hafa litið í kringum sig, ekki kannast við aðstæður og svaraði móðurinni að hann héldi ekki. Hann myndi ekki eftir að hafa komið þangað áður. Kom þá í ljós að fjölskyldan átti heima annars staðar á þeim tíma.

„Svo rifjar hún upp hina fæðinguna, hvenær hún var og ég sagði að það passaði alveg. „Ég sé það núna, ég man líka eftir þér,“ sagði ég við hana. Þá rifjaðist það upp fyrir mér að ég hafði tekið á móti barni hjá henni áður.“

Guðmundur segir þetta afar sérstakt og veit ekki til þess að svona hafi gerst áður.

Hitti aðeins eldri stúlkuna

„Síðan gekk þessi fæðing bara ljómandi vel, eins og flestar fæðingar sem gerast hratt, og það fæddist falleg lítil stúlka nokkrum mínútum eftir að við komum á staðinn. Það var eitthvað við þessa stund, líka þegar ég talaði við föðurinn eftir á, þetta var mjög fallegt og gaman að fá að eiga svona móment með þessari fjölskyldu.“

Sjúkraflutningamennirnir voru heima hjá fjölskyldunni í dágóða stund eftir fæðinguna. „Við vorum hjá þeim á meðan ljósmóðirin var að mæla og ganga frá og svo kvöddumst við.“

Guðmundi hitti aðeins stúlkuna sem hann tók á móti árið 2017 en það var áður en að hann vissi um tenginguna. „Ég vissi ekki að ég hefði tekið á móti þeirri stúlku þegar afinn kom á staðinn að sækja hana. Tengingin hafði ekki átt sér stað.“

Mikilvægast að halda andrúmsloftinu léttu 

Guðmundur hefur starfað sem sjúkraflutningamaður í 27 ár og segir ýmislegt hafa breyst á síðustu árum þegar kemur að fæðingum. „Það sem hefur breyst er að þegar óskipulögð heimfæðing á sér stað, þá höfum við aðgang að ljósmóður sem sinnir heimafæðingum og þá getur hún komi á staðinn. Ef allt hefur gengið vel og allt er eðlilegt þá er engin þörf fyrir mæður að fara upp á spítala.“ Ljósmóðir á bakvakt er þá kölluð út til að gera nauðsynlegar skoðanir á barni og móður.

Guðmundur segir það gerast mjög reglulega að sjúkraflutningamenn taki á móti börnum í óskipulögðum heimafæðingum og jafnvel í sjúkrabílnum á leiðinni upp á spítala. Hann er þó ekki með tölfræði yfir fjölda fæðinga sem sjúkraflutningamenn hafa komið að. Sjálfur hefur hann tekið á móti að minnsta kosti tuttugu börnum.

„Þetta er mjög gefandi og yndislegt þegar börn fæðast og allt gengur vel. Maður gerir svosem ekki mikið. Mæðurnar sjá bara um þetta sjálfar. Maður er bara þarna til að veita andlegan stuðning. Þetta eru ekki nein afrek hjá okkur sjúkraflutningamönnunum sem tökum á móti,“ segir hann kíminn. Blaðamaður getur þó staðfest það við hann að góður andlegur stuðningur skiptir móður miklu máli á svona stundu. „Já, að halda andrúmsloftinu léttu, það er líklega það mikilvægasta sem við gerum. En móðirin á allan heiðurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert