Samhliða innleiðingu á nýju rafrænu greiðslukerfi Strætó, KLAPP, í gær voru einnig gerðar breytingar á gjaldskrá Strætó, sem skipt er í nokkra flokka. Meðal breytinga má nefna að árskort fyrir aldraða hækkaði úr 25 þúsund krónum í 40 þúsund krónur, eða um 60%. Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segist sannfærður um að hækkun sem þessi verði ekki til þess að auka nýtingu eldra fólks á strætisvögnum.
Helgi segist hafa saknað þess að ekki væri í boði árskort fyrir eldra fólk á viðráðanlegu verði. „Ég þekki vel til í Danmörku og þar sem ég bjó var eldra fólki boðið að kaupa árskort á 365 krónur eða fyrir krónu á dag. Alls staðar í kringum okkur er verið að stefna eldra fólki úr bílum í almenningssamgöngur, að minnsta kosti er verið að búa þannig um hnútana að þetta sé raunhæfur valkostur. Hugsunin er allt önnur og þar er ekki verið að íþyngja fólki á þennan hátt.
Mér finnst þetta mjög sérkennileg ráðstöfun og sem gamall formaður Strætó finnst mér þetta alveg út úr kú. Ég hefði aldrei samþykkt þetta,“ segir Helgi Pétursson.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag