Til skoðunar að ráða inn fleiri erlenda starfsmenn

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir tók við sem forstjóri Landspítalans þegar Páll …
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir tók við sem forstjóri Landspítalans þegar Páll Matthíasson hætti í upphafi október. Kristinn Magnússon

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir settur forstjóri Landspítalans segir heilbrigðisstarfsfólk vanta á Íslandi. Að hennar sögn hefur spítalinn til skoðunar að sækja starfskrafta að utan í auknum mæli en hún segir að nú þegar hafi 150 erlendir hjúkrunarfræðingar verið fengnir til starfa sem hafi gefið góða reynslu þó að þeim fylgi nokkur aukakostnaður.

„Það er ekki mörgum til að dreifa. Þannig að það er bara skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Ég held að við verðum bara að átta okkur á því,“ segir Guðlaug Rakel í samtali við mbl.is í kvöld spurð hvernig mönnunarátök í heilbrigðisþjónustu hafi gengið upp á síðkastið.

Bakvarðasveitin virkjuð í lok október

Spítalinn sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem fólki með með vægari slys og veikindi var bent á aðra staði þar sem biðin gæti orðið drjúg á bráðamóttökunni.

Guðlaug segir mönnunarátök í spítalans hafa gengið erfiðlega vegna almennrar vöntunar á heilbrigðisstarfsfólki. Bakvarðasveit heilbrigðisráðuneytisins var virkjuð á ný í lok október og þann 6. nóvember ítrekaði ráðuneytið að brýn þörf væri á fleira heilbrigðisstarfsfólk til að vinna með skömmum fyrirvara.

Að sögn Guðlaugar gerir spítalinn kröfu um að fólk geti …
Að sögn Guðlaugar gerir spítalinn kröfu um að fólk geti talað við sjúklinga á sínu móðurmáli. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tungumálið reynst fjötur um fót

Hafið þið skoðað að sækja meira vinnuafl að utan?

„Við höfum alveg verið að skoða það hvort við getum tímabundið ráðið erlent starfsfólk og þá fleiri en við höfum verið að gera hingað til,“ segir Guðlaug en að hennar sögn eru tungumálaörðugleikar helsta hindrunin.

„Við gerum kröfur um að fólk geti talað við sjúklinga á sínu móðurmáli og að fólk geti gert sig skiljanlega við starfsfólkið. Við erum með sirka 150 hjúkrunarfræðinga sem eru af erlendu bergi brotnir og það gengur mjög vel. Þó við getum ekki tekið á móti stórum hópum í einu. Það gengur hins vegar mjög vel með góðu utanumhaldi og góðri aðlögun,“ segir Guðlaug sem bendir þó á að slíkt geti haft margvíslegan aukakostnað í för með sér.

Þegar erlendir starfsmenn flytja hingað inn þurfa þeir tíma í aðlögun sem getur verið mannfrekt en auk þess þarf að útvega þeim húsnæði og margt fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert