Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir íkveikju

Talið var að fangelsisrefsing myndi bera árangur.
Talið var að fangelsisrefsing myndi bera árangur. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt Kristófer Örn Sigurðsson í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa í nóvember árið 2019 kveikt í íbúðarhúsi á Akureyri með því að leggja viskustykki yfir brauðrist og kveikja á henni.

Í upphaflegri matsgerð geðlæknis kom fram að ólíklegt þætti að fangelsisrefsing myndi skila árangri, enda hafi ákærði verið í geðrofi. Þegar læknirinn bar hins vegar vitni fyrir dómi taldi hann Kristófer átta sig á afleiðingum gjörða sinna og að hann ætti að geta fengið fullnægjandi þjónustu í fangelsi, enda kæmu einkenni hans einkum fram í tengslum við neyslu.

Kom óðamála á lögreglustöðina og vildi komast á Vog

Ákærði bjó sjálfur húsinu sem hann kveikti í en samkvæmt dómnum gekk hann út eftir að hafa sett brauðristina í gang. Með athæfi sínu olli hann eldsvoða sem hafði í för með sér að íbúar á efri hæð hússins voru í bersýnilegum lífsháska og augljós hætta var á yfirgripsmikilli eyðileggingu húsnæðisins hefði eldurinn náð a breiðast frekar út. Það var íbúi á efri hæðinni sem varð var við eldinn og gerði slökkviliði viðvart sem réði niðurlögum eldsins.

Lögregla fann í kjölfarið ákærða sem var þá óðamála, vildi tala við lækni, komast á geðdeild og fá lögfræðing. Þá harðneitaði hann að hafa kveikt í húsinu. Var hann færður í fangaklefa en síðar þegar honum var fylgt á klósettið sagðist hann hafa kveikt í og lýsti hvernig hann gerði það. Hann játaði einnig í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa kveikt í, en kaus að tjá sig ekki um atvik málsins fyrir dómi.

Í dómnum kemur fram að kvöldið fyrir brunann hafi ákærði komið í port lögreglustöðvarinnar, talandi við sjálfan sig, verið í miklu ójafnvægi, talað samhengislaust og sagt að honum liði ekki vel. Hann sagðist vilja komast á meðferðarheimilið Vog. Var honum boðið að gista í fangaklefa en klukkustund síðar vildi hann fara heim og var hleypt út.

Ákærði hafi verið í geðrofi

Geðlæknir gerði rannsókn á ákærða og var það niðurstaða hans að ákærði hefði verið í geðrofsástandi og að verulegar líkur væru að ástand hans hafi, að hluta til, verð framkallað af neyslu á kannabisefnum og amfetamíni. Var það mat læknisins að ólíklegt að refsing í formi fangelsisrefsingar gæti borið árangur. Hann styddi því tillögu geðlækna á Akureyri, gerða í samráði við geðdeild Landspítala, um að ákærði legðist inn á réttargeðdeild til framhaldsmeðferðar og eftirlits.

Fyrir dómi kvað læknirinn ákærða þó skilja tilgang refsingar þegar hann hafi verið edrú í einhvern tíma og kvað hann almennt átat sig á afleiðingum gerða sinna þótt hann verði stjórnlaus í neyslu. Fram kom að niðurstaða matsins á sínum tíma hefði ráðist af tillögum um inngrip sem þá höfðu komið fram. Sagði hann heilbrigðisþjónustu í fangelsum hafa batnað á síðustu árum og að ákærði ætti að geta fengið fullnægjandi þjónustu þar, enda komi einkenni hans fram í tengslum við neyslu.

Var litið til þess ákærði hefði verið á eigin vegum undanfarin tvö ár tíma án þess að nokkuð stórvægilegt hefði komið upp á. Var það því álit dómsins að ætla mætti að refsing geti borið árangur.

Var því hæfileg refsing því talin vera tveggja og hálfs árs fangelsi, ásamt greiðslu sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert