Setning staðgengils í ráðherraembætti var á dagskrá ríkisstjórnarfundar í gær. Við nánari eftirgrennslan Morgunblaðsins kom í ljós að skipa þurfti staðgengil í stað Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, vegna skipunar í embætti skólameistara Flensborgarskóla.
Lilja hefur kosið að segja sig frá ákvarðanatöku um skipan skólameistara ef Ágústa Elín Ingþórsdóttir, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, er á meðal umsækjenda. Fellur það Sigurði Inga Jóhannssyni, flokksbróður Lilju, í skaut.
Forsaga málsins er sú að Lilja ákvað að auglýsa starf skólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands eftir að skipunartími Ágústu rann út á síðasta ári. Ágústa taldi ákvörðunina um auglýsingu á starfi sínu ólöglega og kærði hana.
Var mennta- og menningarmálaráðherra sýknaður af kröfu Ágústu í tvígang, í héraði og í Landsrétti. Snerust deilur um lögmæti uppsagnarinnar um hvort Ágústu hefði verið tilkynnt með fullnægjandi hætti og innan tilskilins tímaramma að til stæði að auglýsa starfið.
Tilkynnti Lilja Ágústu ákvörðunina símleiðis 30. júní það ár og hafði bílstjóri ráðherra þá sömuleiðis komið boðsendu bréfi þess efnis inn um bréfalúgu á heimili Ágústu.
Þar sem Ágústa hefur lögsótt ráðherra á tveimur dómstigum mun Lilja telja að ekki sé rétt að taka þátt í ráðningarferli þar sem Ágústa er annars vegar. Mun þetta ekki vera í fyrsta skipti sem hún segir sig frá skipun skólameistara þar sem Ágústa er á meðal umsækjenda.