Hægst hefur á skjálftahrinunni sem hófst við Grindavík í gærkvöldi en önnur skjálftahrina er enn í gangi. Sú er staðsett í grennd við Þrengslin, suður af Syðri-Eldborg. „Þetta er í raun bara eðlilegt. Það koma hrinur þarna reglulega,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um stöðuna.
Skjálfti að stærð 3 varð 3,5 kílómetra frá Grindavík rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi og mældust um 20 skjálftar á svæðinu í kjölfarið.
Um 140 skjálftar hafa mælst í grennd við Þrengslin síðan í gær og er hrinan enn í gangi.
„Þar koma reglulega inn skjálftar,“ segir Lovísa í samtali við mbl.is.
Stærsti skjálfti sem mælst hefur við Þrengslin á sl. sólarhring var 2,9 að stærð en hann varð rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi.
Veðurstofunni hafa borist tilkynningar frá fólki sem hefur orðið vart við skjálftana við Þrengslin og sömuleiðis þá sem urðu við Grindavík í gær.