Alþjóðlegur dagur klósettsins rennur í garð á morgun. Ljóst er að fólk heldur daginn mishátíðlega en Umhverfisstofnun nýtir þó tilefnið til þess að minna, í tilkynningu sinni, á átaksverkefnið „Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið.“
Tæplega 200 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi finnast árlega í fráveitum um land allt. Magnið samsvarar því um hálfu kíló á hvern landsmann af úrgangi sem fer í klósettið á hverju ári, er fram kemur í tilkynningu Umhverfisstofnunar.
Úrgangur í fráveitu er þá landlægt vandamál sem ekki bara skaðar umhverfið og þyngir rekstur fráveitukerfa, heldur getur kostnaður sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á rusli í fráveitum hlaupið á tugum milljóna á ári hverju.
Helst eru það þá blautþurrkur, sótthreinsiklútar, smokkar, tannþráður og eyrnapinnar sem landsmenn sturta niður og síðan þarf að hreinsa úr fráveitukerfinu.
Eins og áður segir þá minnir Umhverfisstofnun á átaksverkefnið „Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið“ en verkefnið er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar og Samorku í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda um land allt.
Markmið verkefnisins er að draga úr rusli í fráveitu og draga um leið úr álagi á umhverfið. Í fyrra var þá gefið út lag í tilefni verkefnisins og því jafnvel vert að spila það á morgun í tilefni dagsins.