„Mér líst bara vel á þessa þróun. Sérstaklega ef fólk drekkur í auknum mæli léttöl í stað gosdrykkja. Það eru yfirleitt minni kolvetni og enginn sykur í þessum drykkjum og því má segja að þeir séu hollari. Svo þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því hversu marga maður drekkur,“ segir Baldur Kárason, bruggmeistari hjá Víking brugghúsi.
Mikil gróska hefur verið í framleiðslu á áfengislausum og léttum bjórum hér á landi síðasta eitt og hálfa árið. Hinn íslenski Pilsner og sams konar 2,25% léttbjórar hafa lengi notið vinsælda en undanfarið hafa bæst við bjórar sem flokkast sem áfengislausir. Sífellt fleiri virðast kunna að meta þessa flóru eins og sjá má í matvöruverslunum þar sem heilu hillustæðurnar eru nú lagðar undir bjórinn. Nú er þessi þróun farin að smitast yfir í jólabjórinn. Stóru brugghúsin tvö senda bæði frá sér metnaðarfulla jólabjóra sem fást í matvöruverslunum fyrir jólin.
Baldur segir að gróskan í framleiðslu léttbjóra spegli að einhverju leyti þá þróun sem hefur verið í framleiðslu handverksbjóra síðustu ár. „Þessi þróun fylgir í kjölfarið á algerri sprengingu sem hefur orðið í sterku bjórtegundunum. Bruggarar hafa verið að prófa sig áfram í öllum gerðum af bjór. Núna eru menn farnir að gera dökka léttbjóra, dökka IPA-bjóra og allskonar tegundir.“
Víking er með tvo létta jólabjóra fyrir þessi jól, báða 2,25% að styrkleika. Annar kallast einfaldlega Víking jólabjór en hinn er Jólagosi. Er þar um að ræða gosbjór með trönuberjasafa.
„Það er nýjung hjá innlendum framleiðendum að gera svona „radler“, sem er blanda af gosi og bjór. Svona drykkir eru mjög vinsælir í Þýskalandi. Hjólreiðamönnum þar í landi fannst of mikið að fá sér bjór þegar þeir stoppuðu á ferðum sínum og tóku upp á því að blanda saman bjór og gosi. Þar með fengu þeir smá orku en ekki áfengisáhrifin,“ segir Baldur.
Hann segir að fleiri léttbjórar muni líta dagsins ljós á næstunni. „Já, við munum halda áfram í þessu, bæði í áfengislausum og bjórum með lágri alkóhólprósentu. Eins og fyrrverandi forstjóri hér orðaði það gjarnan, það er ýmislegt í gerjun.“
Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi, segir að brugghúsið hafi frá árinu 2011 nefnt jólabjóra sína eftir íslensku jólasveinunum og hefur nýr sveinn bæst við árlega síðan Stekkjarstaur reið á vaðið.
Í fyrra var svo aukalega kynntur til leiks fyrsti áfengislausi íslenski jólabjórinn og nefndist hann Froðusleikir, eftir einum af þeim fjölmörgu jólasveinum sem stóðu utan þess 13 manna hóps sem hlotið hefur frægð og frama fyrir tilstuðlan Jóhannesar úr Kötlum og útgáfu hans á Jólasveinavísunum árið 1932, skreyttum með myndum Tryggva Magnússonar. Froðusleikir er af tegundinni India Pale Ale og er aftur á boðstólum í ár en við hann bætist nú annar lítt þekktur jólasveinn, Faldafeykir, sem er súröl með hindberjum og lakkrís – ferskur og svalandi.
Upphaflega er opinberlega ritað um Faldafeyki í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og má þar, í fyrstu útgáfu, sjá röð 13 jólasveina sem allir eru þekktir í dag – fyrir utan að Faldafeykir er á meðal þeirra.
„Faldafeykir er auðvitað nefndur, líkt og bróðir hans Froðusleikir, eftir einum af þeim tugum jólasveina sem voru partur af gömlum þjóðsögum hér á landi en hlutu ekki náð hjá Jóhannesi úr Kötlum þegar hann orti Jólasveinavísurnar sem auðvitað gerðu 13 bræðranna ódauðlega,“ segir Sturlaugur bruggmeistari. „Það er þó áhugavert að Faldafeykir var einn af þeim 13 sem Jón Árnason getur í fyrstu útgáfu Þjóðsagnanna og í raun er eini munurinn á þessu byrjunarliði Jóhannesar að hann skiptir út Faldafeyki fyrir Hurðaskelli – þá má því færa rök fyrir því að Faldafeykir hafi verið sorglega nálægt því að meika það,“ segir bruggarinn.
Hann er ánægður með þá þróun sem hefur orðið í áfengislausum bjórum hér á landi og viðtökurnar sem þeir hafa fengið. „Við sendum frá okkur Bríó nr. 75, áfengislaust Wheat Ale, seinnipart sumars 2020. Hann var þá fyrsti áfengislausi íslenski bjórinn sem kom á markað eftir umtalverða þróun. Það er óhætt að segja að einhver uppsöfnuð þörf hafi verið fyrir slíku því viðtökurnar hafa verið langt fram úr björtustu vonum. Segja má að um leið og sú lending heppnaðist hafi orðið til langur listi af ólíkum bjórstílum og hugmyndum sem lá fyrir okkur með framhaldið, eins og gengur og gerist. Næsti áfengislausi bjór sem fylgdi á eftir var einmitt Froðusleikir sem við gáfum út sem jólabjór í fyrra. Það var sama þar að viðtökur voru framar öllum áætlunum okkar.
Við höfum á þessu rúma ári sent frá okkur fimm ólíka áfengislausa bjóra ef mér skjátlast ekki og eru þeir í ýmsum stílum. Nú er svo loks komið að því að við kynnum til leiks fyrsta áfengislausa súrbjór Íslandssögunnar, Faldafeyki. Hann er þó eins og vinsælt er með nýmóðins súröl með talsverða sætu á móti og er því auðdrekkanlegur fyrir flesta að ég held. Við setjum í hann umtalsvert magn af hágæða hindberjum og svo lakkrís sem gerir hann að einhvers konar jólanammi.“