Allt í lás á Dalvík

Dalvíkurskóli og tónlistarskólinn á Tröllaskaga eru lokaðir í dag vegna …
Dalvíkurskóli og tónlistarskólinn á Tröllaskaga eru lokaðir í dag vegna gruns um smit. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Dalvíkurskóli og tónlistarskóli Tröllaskaga sem staðsettur er á Dalvík eru lokaðir í dag en tveir starfsmenn grunnskólans auk eins nemanda í fyrsta bekk greindust jákvæðir í heimaprófi. Allir starfsmenn Dalvíkurskóla fara í PCR-próf í dag auk nemenda í fyrsta og sjöunda bekk.

Í kjölfar PCR-prófs verður hægt að staðfesta þau smit sem greindust í heimaprófum eftir því er fram kemur á heimasíðu sveitarfélagsins.

Nauðsynlegt að hemja útbreiðsluna

Í tilkynningu á áðurnefndum vef sveitarfélagsins eru foreldrar beðnir um að vera vel vakandi fyrir upplýsingum sem gætu borist frá skólastjórnendum og kennurum. Bent er á að „nauðsynlegt sé“ að allir geri það sem hægt er til þess að hefta útbreiðslu veirunnar.

Dvalarheimilið Dalbær hefur lokað dyrum sínum fyrir gestum og utanaðkomandi fram yfir helgi í ljósi smita í nærsamfélaginu.

Minna á mikilvægi hólfaskiptinga

Í texta sem einnig var birtur á síðunni er barst frá almannavörnum eru allir á svæðinu hvattir til þess að halda sig til hlés og leggja enn meiri áherslu á smitvarnir. Þá eru þeir sem notast við hólfaskiptingar á vinnustöðum beðnir um að árétta það við sitt starfsfólk að hólfaskiptingin virki ef komi til smits.

Þá er einnig bent á að tryggja þurfi að íþrótta- og félagsstarf sé í fríi meðan náð sé utan um stöðuna og að börn og unglingar sæki ekki æfingar út fyrir sitt svæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert