Atburðarásinni gerð skil á 17 blaðsíðum

Undirbúningsnefnd á fundi.
Undirbúningsnefnd á fundi. mbl.is/Unnur Karen

Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis gaf í gær út drög að málsatvikalýsingu, þar sem farið er yfir atburðarás talningar í Norðvesturkjördæmi eftir þingkosningarnar í september síðastliðnum.

Þar er ekki að finna neina niðurstöðu nefndarinnar um hvort og þá hvernig var ólöglega staðið að talningu eða geymslu kjörgagna.

Raunar sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og einn nefndarmanna, að ekkert benti ennþá til þess að svo stór mistök hafi verið gerð við talningu eða endurtalningu að grípa þyrfti til endurkosningar.

Engin niðurstaða

Drög nefndarinnar eru 17 blaðsíður og er þar rakið hvernig upphafleg talning fór fram og hvernig ákveðið var að endurtalning skyldi fara fram eftir að landskjörstjórn gerði yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi viðvart um að mjótt væri á mununum í kjördæminu.

Drögin byggja á framburði þeirra sem að talningunni stóðu, stjórnarmönnum í yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis og landskjörstjórnar ásamt framburðum umboðsmanna stjórnmálaflokka og frambjóðenda þeirra í Norðvesturkjördæmi.

Mál manna er að störfum undirbúningsnefndarinnar fari að ljúka á næstunni og kemur það þá í hlut eiginlegrar kjörbréfanefndar að taka afstöðu byggða á þeim gögnum sem undirbúningsnefndin safnaði. 

Loks kemur það svo í hlut Alþingis að skera endanlega úr um lögmæti kosninganna í september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert