Fjöldi grænlenskra rjúpna kom til landsins

Fullorðinn karri, myndin var tekin á Norðausturlandi í maí 2021.
Fullorðinn karri, myndin var tekin á Norðausturlandi í maí 2021. Ljósmynd/Ólafur K. Nielsen

Hundruð ef ekki þúsundir grænlenskra rjúpna komu til landsins í haust. Greiningar á vængjum veiddra rjúpna staðfesta þetta, að sögn Ólafs Karls Nielsen, rjúpnasérfræðings og vistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann hvetur rjúpnaskyttur til að skila öðrum vængnum af veiddum rjúpum til Náttúrufræðistofnunar vegna aldursgreininga á íslenskum rjúpum og eins til að sjá hve víða grænlensku rjúpurnar fóru í haust.

Mældi holdafar rjúpna

Ólafur er nýkominn úr leiðangri í Þingeyjarsýslur þar sem hann fékk að láni frá veiðimönnum samtals 207 nýveiddar rjúpur og voru þær vigtaðar og mældar. Til gangurinn er að meta holdafar fuglanna samanborið við fyrri ár. Mögulega eru tengsl á milli heilbrigðis fuglanna að hausti og vetraraffalla. Niðurstöður mælinganna 2021 liggja ekki fyrir.

„Það voru ágætis fuglar þarna innan um, stórir og miklir,“ sagði Ólafur. Hann sagði að í haust hafi frést að rjúpur sem örugglega voru grænlenskar hafi sest á skip norðan við Ísland. Einnig kom rjúpnahópur til Grímseyjar í lok september. Allir þessir fuglar voru alhvítir. Grænlenskar rjúpur verða alhvítar snemma í september en þær íslensku í lok október eða fyrrihluta nóvember.

Efri vængurinn og sá dekkri er af íslenskri rjúpu. Sá …
Efri vængurinn og sá dekkri er af íslenskri rjúpu. Sá neðri og ljósari er af grænlenskri rjúpu. Báðir fuglarnir eru á fyrsta hausti. Greinilegur munur er á litstyrk fananna við fjaðurstafinn í annarri flugfjöður vængsins. Ljósmynd/Ólafur K. Nielsen

Grænlenskar rjúpur í Öxarfirði og Ólafsfjarðarmúla

„Við fundum eina grænlenska rjúpu í þessu safni sem við skoðuðum fyrir norðan og var hún skotin í Öxarfirði. Svo fengum við poka með vængjum níu fugla sem voru skotnir í Ólafsfjarðarmúla og þeir voru allir grænlenskir,“ sagði Ólafur.

Hægt er að greina grænlenskar rjúpur frá íslenskum vegna litarmunar. Fjaðurstafir handflugfjaðranna eru mun ljósari á þeim grænlensku en þeim íslensku. Eins er minna litarefni í fönum flugfjaðra grænlensku rjúpnanna en þeirra íslensku.
Grænlenskar rjúpur eru líka með áberandi stærri vængi en þær íslensku. Þær grænlensku eru líka miklu loðnari um tærnar en íslenskar rjúpur og nöglin ljósari á þeim grænlensku.

Ólafur sagði að grænlenska rjúpan sé farfugl innan Grænlands og ferðist milli norðurhéraða landsins og suðurhlutans vor og haust. Væntanlega hreki fugla af leið í farfluginu og komi þannig til Íslands endrum og sinnum.

Ólafur sagði að Finnur heitinn Guðmundsson fuglafræðingur hafi leitað að grænlenskum rjúpum í rjúpnakippum á Vestfjörðum á 7. áratug síðustu aldar eftir að rjúpur höfðu sést setjast á skip. Svo virðist að þegar það gerist nái æði margar hingað til lands.
Merktar hafa verið um 10.000 rjúpur á Íslandi frá upphafi. Hátt í 2.000 þeirra endurheimtust, allar hér á landi.

Rjúpnaveiðar í Noregi

Rjúpnaveiðar eru vinsælustu fuglaveiðar í Noregi. Þar eru tvær tegundir rjúpna, fjallrjúpa sem er sama tegund og íslenska rjúpan, og svo dalrjúpa sem er aðal veiðibráðin. Rjúpum hefur fækkað mikið á þessari öld í Skandinavíu.

Norska ríkisstofnunin Statskog hefur umsjón með skógum og heiðarlöndum í eigu ríkisins. Hún leyfir rjúpnaveiðar með ákveðnum skilyrðum á sínu landi sem er um 12.000 ferkílómetrar. Auk þess eru rjúpur veiddar á einkalöndum og víða á almenningum. Um 140.000 Norðmenn ganga til rjúpna.

Rjúpnaveiðar hefjast í Noregi 10. september og er veitt fram í lok febrúar eða mars eftir svæðum. Langmest veiðist (um 75%) fyrstu tvær vikur veiðitímans, samkvæmt norska blaðinu JAKT (9-2021). Fram kemur að í fyrra fóru rjúpnaveiðimenn samtals 45.000 daga til veiða hjá Statskog. Um 70% af veiðidögunum skiluðu ekki veiði og um helmingur veiðimannana fékk enga rjúpu.

Jo Inge Breisjøberget, sem skrifaði doktorsritgerð um rjúpnaveiðar, er veiðistjóri Statskog. Breisjøberget segir í viðtali við JAKT að fyrst á veiðitímabilinu, séu mikil náttúruleg afföll í stofninum og eins gott að veiða rjúpurnar þá.

Rjúpnaveiði fyrr á haustin aldrei rædd af alvöru

Ólafur sagði að þetta hafi oft komið fram í umræðunni hér. Það hafi þó aldrei verið rætt af neinni alvöru að hefja rjúpnaveiðar fyrr hér en gert hefur verið. Hann sagði að hefðbundinn veiðitími rjúpna hafi byrjað 15. október og verið veitt fram undir jól. Arnþór Garðarsson, fuglafræðingur, hafi skrifað að upphafstími rjúpnaveiða, þ.e. 15. október, hafi helgast af því að þá var fuglinn orðinn að mestu hvítur. Rjúpur voru veiddar mikið til útflutnings á fyrri hluta 20. aldar og vildu viðskiptavinir í Evrópu fá hvítar rjúpur.

Viðleitni hefur verið til að draga úr sókn í rjúpuna á þessari öld og veiðitíminn verið styttur. Nú má veiða í 22 daga í nóvember en aðeins hálfan daginn. En væri skynsamlegt að hefja rjúpnaveiðar fyrr á haustin og hætta fyrr?
„Útfrá mælingum sem við höfum gert eru náttúruleg afföll fuglanna tiltölulega hröð yfir haustið og svo dregur mikið úr þeim í desember. Þau eru svo tiltölulega lág fram á vor þegar önnur affallahryðja hefst,“ sagði Ólafur. „Það væri alla vega ekki skynsamlegt að veiða rjúpu í desember.“

Statskog miðar við að komi hvert rjúpnapar upp 2,5 ungum að meðaltali sé viðkoman nóg til að stofninn þoli veiðar. Einnig mega veiðiafföll ekki fara yfir 15%. Séu veiðiafföll hærri eða ungahlutfallið lægra en viðmiðið er viðkomandi svæði lokað fyrir veiðum.

Ólafur sagði að veiðistjórnun hafi hingað til ekki verið svæðisbundin hér eins og í Noregi. Hann sagði að við mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins hér hafi verið farið eftir aðferð sem Kjartan G. Magnússon stærðfræðingur og prófessor heitinn þróaði. Kjartan gerði einnig stofnstærðarlíkan fyrir rjúpuna.

Markmið að rjúpnasveiflan haldist óskert

„Sveiflur rjúpnastofnsins eru náttúrulegar. Hugmyndafræðin byggir á því að halda veiðunum innan þeirra marka að sveiflan haldist óskert. Við höfum miðað við að veiðiafföllin séu ekki hærri en um 10%,“ sagði Ólafur. Ráðlögð veiði er reiknuð út frá reiknaðri stofnstærð að hausti og ásættanlegum veiðiafföllum. Sala rjúpna og rjúpnaafurða var bönnuð árið 2005 og þar með lögðust af magnveiðar. Ólafur sagði að það hafi breytt miklu.

„Annars hefur veiðistjórnunin snúist um fjölda leyfilegra veiðidaga og eins hefur verið höfðað til samvisku manna að virða tilmæli um veiðar. Við vitum að það ganga 4-5 þúsund manns til rjúpna þegar stofninn er lítill. Nú var ráðlögð veiði rétt yfir 20.000 fuglar eða 4-5 fuglar á mann,“ sagði Ólafur.

Hér hefur verið fylgst með viðkomu rjúpunnar fyrir einstaka landshluta sem spannar samtals 115 landshlutaár. Af þeim fór afkoman niður fyrir 2,5 unga á par í tíu landshlutaár. Væri landshlutabundin veiðistjórn hér mætti því búast við rjúpnaveiðibanni í einhverjum landshluta á um tíu ára fresti.

Ólafur sagði að nú sé Umhverfisstofnun í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands að vinna að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert