Framlenging farbanns vegna hópnauðgunar staðfest

Landsréttur staðfesti framlengingu farbannsins.
Landsréttur staðfesti framlengingu farbannsins. mbl.is/Hanna

Framlenging farbanns yfir tveimur erlendum mönnum sem grunaðir eru um hópnauðgun gegn konu hér á landi hefur verið staðfest í Landsrétti. Áður hafði Héraðsdómur Reykjaness framlengt farbannið en úrskurðinum var áfrýjað til Landsréttar. 

Lífsýni með erfðaefni sakborninga

Gildir farbannið yfir mönnunum nú til 13. janúar. Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir að rannsókn lögreglunnar á málinu sé á lokastigi þar sem fyrir liggur að lífsýni sem var að finna á bol brotaþola hafi reynst bera erfðaefni mannanna tveggja. 

Eru mennirnir því undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlegt kynferðisbrot

sem fangelsisrefsing er lögð við. Þeir eru báðir erlendir ríkisborgarar en hafa búið hér á landi í nokkur ár. Ekki liggi annað fyrir en að þeir eigi ekki fjölskyldu á landinu. 

Fram kemur í úrskurðinum að brotaþoli hafi sjálf tilkynnt meinta nauðgun til lögreglu laust eftir miðnætti 13. maí í ár. Kveðst hún hafa yfirgefið veitingastað í fylgd manns sem hafi boðið henni í samkvæmi, að samskipti þeirra hafi verið fram á ensku.

„Er hún hefði verið komin í íbúð hefði maðurinn beitt hana kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Þegar maðurinn hefði lokið sér af hefði hann kallað á annan mann, sagt honum að brjóta einnig gegn konunni kynferðislega, sem hann hafi þá gert. Hún taldi að mennirnir væru af erlendum uppruna.

Var brotaþoli með sjáanlega áverka eftir atvikið og fór í kjölfarið á bráðamóttöku Landspítalans til læknisskoðunar,“ segir í málsatvikalýsingu úrskurðarins. Þá segir að lögregla hafi getað borið kennsl á annan manninn úr myndefni öryggismyndavéla veitingastaðarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert